Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir göngin ekki uppfylla öryggiskröfur

Strákagöng á Tröllaskaga - Mynd: Úlla Árdal / RÚV
Slökkviliðsstjóri í Fjallabyggð segir að jarðgöng á Tröllaskaga uppfylli ekki lágmarksöryggiskröfur. Klæðningar í Stráka- og Múlagöngum geti brunnið eftir göngunum endilöngum. Starfsmaður Vegagerðarinnar segir endurbætur kostnaðarsamar og ekki á framkvæmdaáætlun.

Ámundi Gunnarsson, slökkviliðsstjóri Fjallabyggðar, sendi nýverið bréf til Vegagerðarinnar þar sem hann krefst þess að farið verði í endurbætur á jarðgöngum á Tröllaskaga. Þau eru þrenn, Héðinsfjarðargöng frá árinu 2010, Strákagöng frá 1967 og Múlagöng frá 1990.

Þarf að koma á útvarpssendingum

Það er ekki útvarpssamband í neinum þeirra og Ámundi segir fyrst þurfa að huga að því að koma fjarskiptum í lag; „ Í upphafi þarf að huga að því að koma útvarpssendingum þannig að það sé hægt að koma boðum til fólks ef eitthvað kemur upp á og vara fólk við að fara inn í göngin ef eitthvað kemur upp á,“ segir hann.  Það er TETRA og GSM-samband í Múla- og Héðinsfjarðargöngum, en engin fjarskipti eru í Strákagöngum. 

Klæðningar ekki eldvarðar

Þá segir hann þurfa að eldverja klæðningar í Stráka- og Múlagöngum, þær séu svipaðar froðuplasti og geti brunnið eftir göngunum endilöngum með miklum reyk. Guðmundur Gunnarsson, verkfræðingur hjá Brunamálastofnun, sagði árið 1992 að hann teldi þurfa að eldverja klæðninguna með því að steypa yfir með múrblöndu. Ámundi segir að þrátt fyrir að áratugir hafi liðið hafi aldrei verið eldvarið. „En það er ekki endalaust hægt að treysta á guð og lukkuna,“ segir hann. Héðinsfjarðargöng séu hins vegar klædd og frágengin eins og til er ætlast. 

Er fólk í hættu þegar það fer um göngin? „Ekki að öllu jöfnu, en ef eitthvað kemur fyrir þá vil ég helst ekki hugsa þá hugsun til enda,“ segir Ámundi. 

Vantar lýsingu ef göngin fyllast af reyk

Þá vill hann að svokölluð leiðar- eða rýmingarlýsing sé sett alls staðar en hana er aðeins að finna í Múlagöngum. Lýsingin hjálpar fólki að rata út fyllist göngin reyk. Hann segir margoft hafa verið kallað eftir úrbótum en svarið hafi einfaldlega verið: nei. Nú ætli þau hins vegar ekki að sætta sig við það og fari því í gegnum allar þær reglugerðir sem Vegagerðin fari eftir. „Vegagerðin segist fara eftir norskum stöðlum og reglugerðum og þess háttar og þar er alltaf talað um lágmarksöryggiskröfur og við náum því engan veginn,“ segir Ámundi.

Göngin börn síns tíma

Þetta segir Gísli Eiríksson hjá Vegagerðinni, ekki rétt. Göngin séu börn síns tíma og miklar breytingar hafi orðið á hönnunarstöðlum en þeir séu ekki afturvirkir. Svipað og með byggingarreglugerðir. „Menn rífa ekki gömlu húsin þó að þau standist nýjustu byggingarreglugerð engan veginn,“ segir hann.

Klæðningar ekki endurnýjaðar vegna nýrra ganga

Hann segir fjarskipti í Héðinsfjarðar- og Múlagöngum allgóð en búnaður til endurvarps á útvarpssendingum sé ekki til staðar. Til þess að útvarp geti veitt öryggi þurfi stjórnstöð til að tengjast því, slíka stjórnstöð hafi Vegagerðin ekki eignast fyrr en árið 2019. 

Þá sé það ekki eðlilegt að endurnýja klæðningar í Stráka- og Múlagöngum þar sem fram hafi komið tillögur um að breikka Múlagöng og gera ný göng undir Siglufjarðarskarð sem leysi Strákagöng þá af hólmi. Gísli segir aðgerðirnar ekki á framkvæmdaáætlun, endurbæturnar séu kostnaðarsamar og yfirleitt fyrir viðhaldsfé sem sé ekki til mikið af. 

Það kostar um 18 milljónir að koma útvarpssambandi á í Héðinsfjarðargöngum. Gísli segir það snúnara í Múlagöngum þar sem vanti loftnetsstreng, kostnaður þar sé því metinn á 30 milljónir. Að setja upp rýmingarlýsingu í Héðinsfjarðargöngum, ásamt kantsteini og steyptri öxl kostar 825 milljónir. 

Telja vinnubrögðin óásættanleg

Elías Pétursson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, segir tíma kominn á úrbætur. „Vegagerðin hefur komið því þannig fyrir eða tjáð sig með þeim hætti að reglugerðir og annað gildi bara ekki um gömul göng, svo fyrir vikið hafa þeir ekki uppfært búnað í gömlu göngunum nema að mjög litlu leyti, þetta teljum við vera óásættanlegt.“