Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Nýja bylgjan“ líkist þróuninni í vor miðað við vöxtinn

05.08.2020 - 14:29
Fundur almannavarna 4.8.2020 
Þórólfur Guðnason
 Mynd: Almannavarnir - Ljósmynd
Aðeins einn af þeim níu einstaklingum sem greindust í gær voru í sóttkví. Veirurnar sem hafa verið að greinast tilheyra sama stofni og önnur hópsýkingin. Eitt sýni var jákvætt á Vesturlandi, annað á Austurlandi en hin voru öll á höfuðborgarsvæðinu. „Við erum að sjá svipaðan fjölda tilfella og það eru nokkrar sveiflur sem er eðlilegt. Það eru líka sveiflur hjá þeim sem eru í sóttkví sem gæti bent til að útbreiðslan væri meiri,“ sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundi.

Þórólfur sagði að miðað við skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu væri margt sem benti til þess að veiran væri ekki útbreidd. Skimaðir hefðu verið 4.000 einstaklingar hjá ÍE en aðeins þrír hefðu reynst jákvæðir sem benti til þess að samfélagslegt smit væri ekki mikið.

Þórólfur kaus að kalla þetta hópsýkingu þar sem verið væri að glíma við einn stofn kórónuveirunnar. Hann sagði þróunina minna á stöðu mála í vor miðað við vöxtinn en það væri ekki tímabært að herða á aðgerðum. „Við erum í startholunum að herða eða slaka á.“

Hann sagði margar tillögur til skoðunar varðandi hvernig og hvort ætti að takmarka komu erlendra ferðamanna hingað til lands. Ekkert hefði verið ákveðið en von væri á tillögum frá honum í dag eða á morgun. Það væri samt algjört lykilatriði að almenningur færi eftir leiðbeiningum en brögð væru að því að það væri ekki gert.

Hann fagnaði því að ekki væri aukning í alvarlegum veikindum en eini sjúklingurinn sem hefur þurft innlögn á sjúkrahús hefur verið útskrifaður. Áhyggjuefnið væri fyrst og fremst að ekki væri hægt að tengja sum smit saman og að kúrfan væri svipuð og í mars. 

Alma Möller, landlæknir, áréttaði að ekki væri boðið upp á sýnatöku hjá einkennalausum á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins.  Mikið álag hefði verið á heilsugæslunni vegna símtala frá einkennalausum. Aðeins væri boðið upp á skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu og hún væri eingöngu gerð í tengslum við þekkt smit. Hún benti á að verið væri að greina mun fleiri einkennalausa núna og yngra fólk en í vor.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV