Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Nýja bylgjan“ borin uppi af fólki undir fertugu

05.08.2020 - 16:42
Frá skimun ÍE á Akranesi hjá slembiúrtaki 2. ágúst 2020.
 Mynd: Almannavarnadeild ríkislögregl
Fjörutíu prósent þeirra sem eru í einangrun með virkt COVID-19 smit núna er fólk undir þrítugu. Langflestir eru á aldrinum 18 til 29 ára eða þriðjungur allra smita. Rúmlega helmingur allra smita er hjá fólki á aldrinum 18 til 40 ára. Landlæknir hefur lýst því yfir að gera þurfi meira til að ná til þessa hóps. Forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar segir margt benda til þess að fjölgun tilfella í Norður-Evrópu megi rekja til ungs fólks sem hafi slakað á sóttvörnum yfir sumarið.

Alma Möller hefur gert að umtalsefni á upplýsingafundum síðustu daga hversu margt ungt fólk hefur greinst með veiruna.

Ísland ekki einsdæmi

Til stendur að skerpa á skilaboðum til ungs fólks, meðal annars á samfélagsmiðlum. Landlæknir var spurð að því á fundi í vikunni hvort skýringin væri sú að ungu fólki væri alveg sama. Hún sagði það ólíklegt þar sem enginn vildi smita einhvern náinn sér. 40 prósent allra virkra smit hér á landi er hjá fólki undir þrítugu, samkvæmt covid.is, og meira en helmingur er yngri en fjörutíu ára.

Ísland er ekkert einsdæmi þegar kemur að ungu fólki og hinni svokölluðu „nýju bylgju“ kórónuveirufaraldursins sem mörg Evrópulönd hafa orðið vör við og reynt að hefta.  

Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, sagði í síðustu viku margt benda til þess að ungt fólk á norðurhveli jarðar hefði slakað á einstaklingsbundnum sóttvörnum yfir sumartímann. „Ungt fólk er ekki ósigrandi,“ sagði Ghebreyesus.  Vísbendingar væru um að fólk sem hefði fengið væg einkenni glímdi við eftirköst veikindanna í langan tíma.

Haft er eftir Hans Kluge, svæðislækni WHO í Evrópu, á vef Euronews að ungt fólk sé áberandi í hópi þeirra sem nú greinast með kórónuveiruna. Það væri fyrst og fremst fólk á aldrinum 20 til 39 sem greindist með COVID-19.  Hann benti á lönd eins og Þýskaland og Frakkland en þar hafa yfirvöld viðrað áhyggjur sínar af því að ungt fólk viðhafi síður samskiptafjarlægð og sé í meiri samskiptum.

Eitt smit sendi 3 í sóttkví á Vestfjörðum en 25 á Suðurlandi

Þótt smit hafi verið staðfest í öllum landshlutum er staðan mjög ólík. Þannig eru 73 prósent allra smita á höfuðborgarsvæðinu eða 67 af 91. Af þeim 746 sem eru í sóttkví eru 78 prósent búsettir á höfuðborgarsvæðinu.

Og þau smit sem hafa greinst utan höfuðborgarsvæðisins hafa haft misjafnar afleiðingar. 25 þurftu að fara í sóttkví á Suðurlandi vegna smits sem þar greindist en aðeins 3 á Vestfjörðum. 

Lögð hefur verið áhersla á að vernda viðkvæma hópa í faraldrinum. Nú eru þrír á áttræðisaldri með veiruna og einn á níræðisaldri. Enginn liggur á sjúkrahúsi en sá eini sem hefur þurft á innlögn að halda vegna veikinda hefur verið útskrifaður. Hann var aldrei lagður inn á gjörgæsludeild.  

Fréttin hefur verið uppfærð

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV