Meðferð ammóníum-nítrats örugg hér á landi

Mynd með færslu
 Mynd: Barði Sveinsson
Ammoníum-nítrat, efnið sem olli spengingunni í Beirút í gær, hefur ekki verið framleitt hér á landi síðan framleiðslu í Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi var hætt rétt eftir aldamót. Þetta segir Guðmundur Mar Magnússon, sérfræðingur á öryggis- og tæknisviði Vinnueftirlitsins, í samtali við fréttastofu.

Síðan Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi var lokað hefur áburður verið fluttur inn hingað til lands á hverju vori. Guðmundur segir að þótt innflutti áburðurinn innihaldi ammóníum-nítrat sé hann blandaður með öðrum efnum sem gera hann stöðugan, og að sprengjuhættan af honum sé því mjög lítil. Hann sé notaður um leið og hann er fluttur inn og því ekki geymdur í neinu magni. 

Efnið notað í sprengjuvinnu

Guðmundur segir að hreint ammoníum-nítrat sé þó notað í einhverjum mæli í sprengjuvinnu hérlendis. Sérstök réttindi þurfi til að kaupa hreina efnið og það sé hvergi geymt í miklu magni. „Það má enginn kaupa það sem ekki hefur tilskilin réttindi. Og þá þarf fólk að sitja námskeið um meðferð sprengjuefna og taka próf og hafa gild réttindi. Og það er ekki geymt í neitt miklu magni“.  Hann segir það aðeins geta sprungið við sérstakar aðstæður og ekki vera gert sprengjuhæft fyrr en á sprengjusvæðinu. 

Sigurður Ásgrímsson, yfirmaður sprengjusveitar Landhelgisgæslunnar, telur einnig víst að hvergi á Íslandi sé ammoníum-nítrat geymt í neinu magni. Eins og Guðmundur segir hann að áburður sem notaður er hér á landi sé blandaður með öðrum efnum sem gera hann stöðugan og að sprenging gæti ekki orðið nema með samverkandi áhrifum ótal þátta. 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi