Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Margir leita aðstoðar Píeta-samtakanna

Mynd með færslu
 Mynd:
Símtöl til Píeta-samtakanna voru rúmlega tvöfalt fleiri í júlí í ár en í sama mánuði í fyrra. Um þrjátíu einstaklingar hafa heimsótt samtökin, sem sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum í kjölfarið.

Kristín Ólafsdóttir framkvæmdastjóri samtakanna segir í samtali við fréttastofu að rannsóknir sýni að óþægilegar hugsanir fólks geti örvast mjög eftir sjúkdómsfaraldra. Í júlí hafi verið útlit fyrir að Ísland væri að komast upp úr vandanum vegna Covid-19. Það geti að hluta skýrt fjölgun símtala til samtakanna.

Eitt sjálfsvíg á viku

Píeta-samtökin hófu starfsemi sína á Íslandi árið 2018 og auk forvarnarstarfs gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða styðja þau við aðstandendur.

Að sögn Kristínar sýnir Evrópurannsókn að Ísland er næst á eftir Litháen í fjölda sjálfsvíga í álfunni. Búast megi að eitt andlát á viku sé af þeim toga en á fjórða tug er staðfestur ár hvert. Upplýsingar eru mjög aðgengilegar hjá Landlækni og rækilega haldið utan um skráningu ástæðna dauðsfalla.

Kristín segir flest dauðsföll vegna ofnotkunar lyfja eða ávanabindandi efna séu hér flokkuð sem slys en kveður þau geta flokkast sem sjálfsvíg.

Sjálfsvíg getur hvarflað að flestum

Hún segir rannsóknir sýna að félagslegar aðstæður, neysla og sjúkdómar af ýmsu tagi spili inn í líðan fólks en jafnframt að flest fólk hugsi einhvern tíma á lífsleiðinni um að stytta sér aldur.

Vert sé að opna umræðu um að óþarfi sé að byrgja slíkar hugsanir inni. Mun betra sé að tjá sig um þegar þær hvarfla að huganum. Kristín segir þau sem geri tilraunir til sjálfsvíga vera í uppgjöf, komin í öngstræti, orðin leið á úrræðaleysi og bið eftir úrlausn sinna mála.

Fólk eigi að fá aðstoð umsvifalaust, ólíðandi sé að þurfa að bíða lengi eftir úrlausn vandamála sinna. Til séu aðferðir til bjargráða við að vinna úr erfiðum hugsunum. 

Ólíkar leiðir henta til úrlausnar

Samtal dugi sumum en aðrir gætu jafnvel þurft á læknisaðstoð og lyfjagjöf að halda. Kristín segir yngri kynslóðina duglega að tala um líðan síðan og nú leiti karlar jafnt og konur til samtakanna.

Styrkur frá Félagsmálaráðuneyti gerði Píeta-samtökunum kleift að hafa síma opinn allan sólarhringinn og segir Kristín að sér þyki magnað hversu margt fólk hafði samband án þess að símanúmerið hafi verið sérstaklega auglýst.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV