Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kosið á Srí Lanka í dag

05.08.2020 - 04:07
epa08583034 Security personnel escort Sri Lankan polling officers carrying election materials as they leave for their respective polling booths on the eve of the parliamentary election in Colombo, Sri Lanka, 04 August 2020.  Nearly 16.2 million registered voters will cast their ballots during the country's parliamentary election scheduled for 05 August 2020.  EPA-EFE/CHAMILA KARUNARATHNE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þingkosningar fara fram á Srí Lanka í dag, eftir að hafa verið frestað í tvígang vegna COVID-19 faraldursins. Strangar öryggis- og sóttvarnarreglur gilda á kjörstöðum til að draga úr smithættu. Rúmar 16 milljónir eru á kjörskrá og þurfa kjósendur að bera grímu fyrir vitum sér, halda sig í tilskilinni fjarlægð frá næsta manni og taka eigin blýant eða penna með á kjörstað, til að merkja við sinn flokk.

AFP-fréttastofan hefur eftir yfirkjörstjórn landsins að vegna umfangsmikilla öryggis- og sóttvarnaráðstafana séu þetta dýrustu kosningar í sögu Srí Lanka og kosti ríkissjóð um 10 milljarða rúpía, jafnvirði rúmlega 7,3 milljarða króna.

Þjóðernissinnaðir bræður með öruggan meirihluta

Flokkur forsetans Gotabaya Rajapaksa og forsætisráðherrans bróður hans, Mahinda Rajapaksa, hefur mikinn meðbyr og vonast þeir bræður til að tryggja sér nógu afgerandi meirihluta á þinginu til að ógilda þær stjórnarskrárbreytingar fyrri ríkisstjórnar, sem setja skorður við valdatíð forseta.

Flokkur bræðranna er popúlískur þjóðernisflokkur, sem nú fer fyrir minnihlutastjórn undir forsæti hins 74 ára Mahinda. Mahinda er fyrrverandi forseti Srí Lanka og var skipaður í embættið af yngri bróður sínum og núverandi forseta, hinum 71 árs Gotabaya Rajapaksa, sem fór með sigur af hólmi í forsetakosningunum í nóvember síðastliðnum.

Stuðningur stóraukist eftir hryðjuverkaárás

Stuðningur við stefnu þeirra óx mjög meðal Srí Lankamanna eftir einhverja mannskæðustu hryðjuverkaárás í sögu landsins, þar sem öfgaíslamistar myrtu 279 manns og særðu hundruð til viðbótar í sprengjuárásum á þrjár kirkjur, þrjú hótel og fleiri skotmörk.

Sjá einnig: Færri látnir á Sri Lanka en áður var talið

Þá njóta þeir bræður einnig mikillar hylli meðal singhaleska meirihluta þjóðarinnar fyrir að hafa bundið enda á stríðið við aðskilnaðarsinna Tamíla í forsetatíð Mahindas árið 2009.