Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Kaupmannahöfn fór létt með Tyrklandsmeistarana

epa08585923 FC Copenhagen's Jonas Wind (L) celebrates with team mate Pep Biel (2-L) after scoring the 1-0 goal during the UEFA Europa League Round of 16, second leg soccer match between FC Copenhagen and Istanbul Basaksehir at Parken Stadium in Copenhagen, Denmark, 05 August 2020.  EPA-EFE/MADS CLAUS RASMUSSEN  DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - RITZAU SCANPIX

Kaupmannahöfn fór létt með Tyrklandsmeistarana

05.08.2020 - 19:00
F.C. Kaupmannahöfn vann öruggan 3-0 sigur á Tyrklandsmeisturum Istanbul Basaksehir í seinni leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á Parken í kvöld. Ragnar Sigurðsson lék ekki með danska liðinu en það mætir líkast til Manchester United í 8-liða úrslitum.

Ragnar var frá vegna meiðsla og gat því ekki tekið þátt í leik kvöldsins á Parken í Kaupmannahöfn. Heimamenn áttu eins marks forskot að vinna upp eftir 1-0 tap í Istanbúl í mars. Aðeins fjórar mínútur voru liðnar af leiknum þegar staðan í einvíginu var orðin jöfn, 1-1, þegar Jonas Wind kom heimamönnum yfir.

Wind skoraði annað mark sitt úr vítaspyrnu á 53. mínútu og þá kom Rasmus Falk danska liðinu í 3-0 tæpum tíu mínútum síðar. Ljóst var að þeir tyrknesku þurftu tvö mörk til að komast áfram á útivallarmarkareglunni en þeim gekk bölvanlega að koma boltanum í netið. 3-0 lokatölur á Parken og 3-1 sigur Kaupmannahafnar í einvíginu staðreynd. Liðið mætir annað hvort Manchester United í LASK Linz frá Austurríki í 8-liða úrslitum en fyrrnefnda liðið er með 5-0 forystu fyrir síðari leik þeirra í kvöld.

Í Úkraínu tók Shakhtar Donetsk á móti þýska liðinu Wolfsburg en heimamenn höfðu 2-1 forystu úr fyrri leiknum í Þýskalandi. Markalaust var í leikhléi í kvöld en það gaf Wolfsburgurum von þegar Davit Khocholava fékk að líta beint rautt spjald í liði Shakhtar á 68. mínútu. Bandaríkjamaðurinn John Brooks í liði Wolfsburg fékk hins vegar að líta sitt annað gula spjald aðeins tveimur mínútum síðar og luku liðin leik 10 gegn 10.

Markalaust var allt fram á 89. mínútu þegar Junior Moraes kom Shakhtar í forystu. Við það opnuðust allar flóðgáttir þar sem Ísraelinn Manor Solomon tvöfaldaði forystuna skömmu síðar áður en Moraes skoraði sitt annað mark og þriðja mark Shakhtar í uppbótartíma. Þrjú mörk á lokakaflanum tryggðu úkraínska liðinu því 3-0 sigur og 5-1 samanlagt í einvíginu.

Shakhtar mætir annað hvort Frankfurt frá Þýskalandi eða Basel frá Sviss í 8-liða úrslitum en þau eigast við á morgun. Basel er með 3-0 forystu í einvíginu.