Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Inter og Manchester United í 8-liða úrslit

epa08586449 Inter’s Christian Eriksen (2-L) celebrates with temmates after scoring for a 2-0 lead during the UEFA Europa League Round of 16 match between Inter Milan and Getafe at the stadium in Gelsenkirchen, Germany, 05 August 2020.  EPA-EFE/Ina Fassbender / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AFP POOL

Inter og Manchester United í 8-liða úrslit

05.08.2020 - 21:00
Internazionale frá Mílanó og Manchester United tryggðu sér í kvöld sæti í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í fótbolta. Þau verða því á meðal þeirra átta liða sem keppa um titilinn á hraðmóti í Þýskalandi um miðjan mánuðinn.

Það var í raun formsatriði fyrir Mancheste United að fara áfram í næstu umferð eftir 5-0 sigur liðsins á LASK Linz frá Austurríki í fyrri viðureign félaganna í mars síðastliðnum. Ole Gunnar Solskjær, stjóri United, ákvað því að hvíla marga af sínum helstu leikmönnum í kvöld.

Hálfgert varalið United lenti undir þegar Philipp Wiesinger kom LASK í forystu eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik. Jesse Lingard jafnaði aftur á móti fyrir United tveimur mínútum síðar og þá tryggði Anthony Martial liðinu 2-1 sigur með marki skömmu fyrir leikslok. Manchester-liðið vann því 7-1 sigur samanlagt og fer áfram í átta liða úrslit þar sem Ragnar Sigurðsson og félagar hans í F.C. Kaupmannahöfn bíða United-manna í Köln þann 10. ágúst næst komandi.

Annar leikur var á dagskrá samtímis þar sem Internazionale frá Mílanó mætti spænska liðinu Getafe. Engin fyrri viðureign var fyrir hendi milli félaganna þar sem ástandið vegna kórónuveirunnar var svo slæmt á bæði Ítalíu og Spáni þegar aðrir leikir fóru fram að þeim milli Inter og Getafe var frestað.

Þau áttust því við í hreinum úrslitaleik um sæti í 8-liða úrslitum á hlutlausum velli í Gelsenkirchen í Þýskalandi. Belginn Romelu Lukaku kom Inter í forystu eftir rúmlega hálftíma leik og 1-0 stóð í hléi. Jorge Molina fékk tækifæri til að jafna fyrir þá spænsku af vítapunktinum stundarfjórðungi fyrir leikslok en skaut fram hjá marki Inter. Molina refsaðist fyrir klúðrið þar sem Daninn Christian Eriksen innsiglaði 2-0 sigur Inter skömmu síðar.

Inter er því einnig komið í 8-liða úrslitin þar sem liðið mætir annað hvort Rangers frá Skotlandi eða Bayer Leverkusen frá Þýskalandi. Þau eigast við í Þýskalandi á morgun en Leverkusen vann 3-1 í Skotlandi í mars.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Kaupmannahöfn fór létt með Tyrklandsmeistarana