Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Einn slasaðist og Eyjafjörður án rafmagns

05.08.2020 - 11:41
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Skammhlaup varð í tengivirkinu á Rangárvöllum ofan Akureyrar í morgun. Einn var fluttur á sjúkrahús og allur Eyjafjörður er án rafmagns.

Rafmagnslaust er í öllum Eyjafirði og Fnjóskadal og víðar eftir háspennubilunina sem var nokkuð alvarleg. Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti voru starfsmenn Rarik og Landsnets að skipta um spenni í tengivirkinu á Rangárvöllum.

Rafmagnslaust varð í Vaðlaheiðargöngum um klukkan níu í morgun og síðan fór rafmagnið af Akureyri og öllum Eyjafirði tæpum tveimur tímum síðar. Samkvæmt upplýsingum frá Valgeiri Bergmann, framkvæmdastjóra Vaðlaheiðarganga, eru göngin lýst með varaafli og neyðarlýsingu. Vonast er til að rafmagnið komist aftur á um klukkan hálf eitt í dag. 

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var einn fluttur með sjúkrabíl af staðnum en ekki er vitað um líðan hans. 

Uppfært: Rafmagn var komið aftur á á Akureyri um klukkan 13:30 og áfram er unnið að viðgerð. Ekki er talið að maðurinn sem var fluttur á sjúkrahús hafi slasast alvarlega.