Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Danskur sérfræðingur segir jólahlaðborðin í hættu

05.08.2020 - 23:21
Mynd með færslu
Jólahlaðborð á Sauðárkróki Mynd: Bergmann Guðmundsson
Ef Danir hafa ekki varann á og passa ekki upp á einstaklingsbundnar sýkingavarnir er hætt við því að það verði engin jólahlaðborð í ár. Þetta segir sérfræðingur hjá sóttvarnastofnun Danmerkur. Hann telur líklegt að jólahlaðborð vinnustaða verði meira og minna blásinn af vegna kórónuveirufaraldursins en vinahópar geti bætt sér það upp með því að hittast í heimahúsum og „hygge sig.“

„Við verðum að vera undir það búin að það verði enginn „julefrokost“ í ár. Við getum samt huggað okkur við að þetta varir bara þar til bóluefni er komið á markað,“ sagði Anders Formsgaard, sérfræðingur hjá sóttvarnalækninum í Danmörku, í morgunþætti danska ríkisútvarpsins P1 Morgen.

Jólahlaðborðið er rótgróin dönsk hefð sem á rætur sínar að rekja til stríðsáranna. Hún barst síðan til Íslands þar sem jólahlaðborðin njóta ekki síður mikilla vinsælda með dönsku purusteikinni og íslenska laufabrauðinu í aðalhlutverkum

Formsgaard segir í viðtali við BT að hann reikni með að Sóttvarnastofnun Danmerkur, þar sem vinna 500 manns, verði væntanlega ekki með neitt jólahlaðborð í ár. 

Danir líkt og aðrar þjóðir í Evrópu eru nú að kljást við nýja bylgju faraldursins og smitum hefur fjölgað þar eins og annars staðar.

Formsgaard segir að fimm bóluefni við kórónuveirunni séu nú á þriðja fasa  sem geti þýtt að þau fái neyðarleyfi í kringum jólin. „En ég veit ekki hvort þau verða tilbúin fyrir jólahlaðborðs-vertíðina eða hvort Danmörk sé framarlega í röðinni.  Væntanlega verður mikil eftirspurn.“

Hann telur skynsamlegast að í stað jólahlaðborða komi góð stemning og notalegheit. „Og þótt einhverjir vinnustaðir fái grænt ljós þá geta menn ekki leyft sér sömu hegðun og fyrir COVID-19. Við verðum að nýta þá þekkingu og reynslu sem við höfum aflað okkur síðustu mánuði.“

Ein lausnin gæti verið sú að hætt yrði með sjálf hlaðborðin og hver og einn gestur fengi sinn disk með hnossgætinu á. Önnur lausn gæti verið sú allir að sætu í einni röð en ekki á móti hver öðrum. „Og fólk gæti boðið upp í dans með því að framvísa nýlegu vottorði um að það sé ekki með COVID eða hafi myndað mótefni,“ segir Formsgaard í léttum dúr.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV