Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bíll morðingjanna í Botkyrka mögulega fundinn

05.08.2020 - 02:16
Hálfbrunninn bíll, sem talið er líklegt að morðingjar tólf ára stúlku í bænum Botkyrka hafi ekið þegar þeir frömdu ódæðið, fannst í Sollentuna, útbæ Stokkhólms.
 Mynd: Janne Åkesson - SVT
Tæknideild Stokkhólmslögreglunnar rannsakar nú hálfbrunnið bílflak, sem talið er líklegt að morðingjar tólf ára stúlku hafi notað við illvirki sitt. Stúlkan var skotin til bana í bænum Botkyrka, skammt frá Stokkhólmi, þar sem hún var á gangi með hund sinn um helgina. Talið er víst að hún hafi ekki verið skotmark morðingjanna, heldur meðlimir glæpagengis sem voru á ferli á sömu slóðum á sama tíma.

Árásarmennirnir, sem taldir eru tilheyra öðru glæpagengi, skutu úr bíl á ferð og hröðuðu sér á brott. Vitni og myndir úr öryggismyndavél benda til þess að bíllinn hafi verið hvítur skutbíll.

Um hálfeitt í nótt að sænskum tíma barst lögreglu tilkynning um brennandi bíl í bænum Sollentuna í Stokkhólmsléni. Sænska ríkissjónvarpið, SVT, hefur eftir Jari Kalliorinne hjá Stokkhólmslögreglunni, að ekki sé enn hægt að fullyrða að þetta sé bíllinn sem leitað hefur verið, en hann sé vissulega sömu tegundar og í sama lit og verði rannsakaður í þaula.