Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Allt að 300.000 manns misstu heimili sín í Beirút

05.08.2020 - 11:20
Erlent · Asía · Beirút · Líbanon
Þessar myndir voru teknar í morgun, daginn eftir sprenginguna. - Mynd: EPA-EFE / EPA
Talið er að allt að 300.000 manns hafi misst heimili sín í sprengingum á hafnarsvæðinu í Beirút í Líbanon í gær. Eyðileggingin í borginni í gríðarlega mikil og minnir helst á stríðssvæði. Yfir hundrað manns fórust og á fimmta þúsund slösuðust, mörg alvarlega.

Al Jazeera hefur eftir Marwan Abboud, borgarstjóra Beirút, að nú sé verið að útvega því fólki sem missti heimili sín húsaskjól, mat og vatn. 

Sjá einnig: Yfir hundrað látin í Beirút

Mörg ríkja heims hafa boðið Líbönum aðstoð sína. Staðan í landinu var slæm fyrir, þar er djúp efnahagskreppa og COVID faraldurinn hefur einnig haft sín áhrif.

Spítalar í Líbanon eru yfirfullir. Kúveitar brugðust skjótt við og senda lækna á vettvang í dag. Katarar ætla að koma bráðabirgðasjúkraskýlum til Beirút og forseti Írans, Hassan Rouhani, hefur komið þeim skilaboðum til líbanskra stjórnvalda að Íranir séu reiðubúnir að senda læknishjálp og búnað.

Konungur Jórdaníu, Abdullah II, hefur tilkynnt að Jórdanir sendi fljótt heilbrigðisstarfsfólk og búnað. Þá eru 67 Hollendingar á leiðinni til Beirút, þar á meðal læknar, lögreglu- og slökkviliðsmenn. 

epa08584825 People sit amid damaged shops in the aftermath of a massive explosion in downtown Beirut, Lebanon, 05 August 2020. According to media reports, at least 100 people were killed and more than 4,000 were injured after an explosion, caused by over 2,500 tonnes of ammonium nitrate stored in a warehouse, devastated the port area on 04 August.  EPA-EFE/WAEL HAMZEH
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Í gær var í fyrstu ekki ljóst hvað olli sprengingunum. Líbönsk stjórnvöld telja að þær hafi orðið í vöruskemmu þar sem 2.750 tonn af ammonium-nítrati hafa verið geymd í sex ár. Abboud borgarstjóri hefur greint frá því að árið 2014 hafi verið varað við því í skýrslu að mikil sprenging gæti orðið í borginni þar sem efnin hafi ekki verið geymd á öruggan hátt.