Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

90 ár frá fæðingu Neils Armstrong

Mynd: Pixabay / Pixabay

90 ár frá fæðingu Neils Armstrong

05.08.2020 - 14:49

Höfundar

Í dag eru níutíu ár frá fæðingu Neils Armstrong. Armstrong steig fyrstur manna fæti á tunglið 20. júlí 1969. Þrátt fyrir að vera einn þekktasti geimfari í heimi leit hann fyrst og fremst á sig sem flugmann, segir Örlygur Hnefill Örlygsson, sem þekkir vel til sögu tunglfarans.

Armstrong lenti á tunglinu ásamt Buzz Aldrin árið 1969 með geimfarinu Apollo 11. Hann varð fyrsti maðurinn til að stíga fæti á tunglið og þau orð sem hann lét falla af því tilefni eru fyrir löngu orðin ódauðleg. Aðeins 23 til viðbótar hafa komið þangað. Armstrong lést árið 2012, 82 ára að aldri. 

Neil Armstrong leit alltaf fyrst og fremst á sig sem flugmann, sagði Örlygur Hnefill Örlygsson á Morgunvaktinni á Rás 1. Örlygur kom á fót Könnunarsögusafninu á Húsavík. Neil Armstrong varð heillaður af flugvélum aðeins tveggja ára og það var ekki aftur snúið eftir að hann fór í sína fyrstu flugferð sex ára gamall, segir Örlygur. Armstrong var kominn með flugréttindi sextán ára og áður en hann gat fengið bílpróf. 

Það dugði ekki til að tunglfararnir væru framúrskarandi flugmenn heldur þurftu þeir einnig að kunna fyrir sér í jarðfræði. Í því skyni kom Armstrong hingað til lands, og hlaut þjálfun í jarðfræði, svo hann gæti starfað sem vísindamaður á tunglinu, segir Örlygur. Hann segir að tunglfaranum hafi liðið vel hér á landi bæði fyrir og eftir ferðina til tunglsins.

Örlygur sagði nánar frá sögu tunglfarans merka og tengingu hans við Ísland á Morgunvaktinni á Rás 1. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Peysan yljaði Neil Armstrong á Norðurpólnum

Neil Armstrong látinn