Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

9% þeirra sem greindust með COVID-19 ekki með mótefni

05.08.2020 - 07:00
Mynd:  / 
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir engin merki um að mótefni gegn COVID-19 minnki fljótt eftir að fólki batnar. Níu prósent þeirra sem greindust smituð eru ekki með mótefni.

Íslensk erfðagreining skimaði rúmlega 30 þúsund manns fyrir mótefnum og komst að þeirri niðurstöðu að tæplega eitt prósent þjóðarinnar hefði vörn gegn COVID-19. Rannsóknir fyrirtækisins benda til þess að mikill meirihluti þeirra sem smitast myndi mótefni og verndin sem það veitir sé varanleg.

„Það eru engin merki þess íslensku samfélagi, að mótefnin fari að minnka fljótt eftir að fólk læknast eins og menn hafa verið að velta fyrir sér í útlöndum og hafa haft áhyggjur af, fréttirnar af því hafa byggst á því að rannsaka mjög fáa einstaklinga, við erum að rannsaka mjög marga og niðurstöður okkar eru óyggjandi,“ segir Kári. 

Eldra fólk og karlmenn með meira mótefni

Þá hefur fleira forvitnilegt komið í ljós við mótefnamælingu Íslenskrar erfðagreiningar. Eldra fólk myndar meira mótefni en yngra og karlar mynda meira mótefni en konur. „Konur eru nýtnari en karlmenn, þær þurfa ekki eins mikið þó þær verði minna lasnar þó þær hafi minna af mótefnum,“ segir Kári. 

Hann segir að 9% þeirra sem greindust með veiruna hér hafi ekki myndað mótefni. Það getur átt sér fleiri en eina skýringu. „Það er einhver hundraðshluti sem er falskt pósitífur á prófinu þannig að sá möguleiki er fyrir hendi að einhverjir af þessum 9% séu einstaklingar sem voru ekki sýktir. HInn möguleikinn er að líkaminn getur tekist á við svona sýkingu, ekki bara með því að mynda mótefni heldur líka með því að virkja T frumur sem geta líka brugðist við veirunni, en það er efni fyrir síðari tíma rannsóknir,“ segir Kári.