Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

2,5% af opinberum útgjöldum fóru til menningarmála

Þjóðleikhúsið við Hverfisgötu.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir

2,5% af opinberum útgjöldum fóru til menningarmála

05.08.2020 - 09:54

Höfundar

Opinber útgjöld til menningarmála hér á landi námu 2,5% af heildarútgjöldum ársins 2018 og 0,5% heildarútgjalda var varið til fjölmiðla. Langstærsti útgjaldaliður ríkisins til fjölmiðlunar rann til Ríkisútvarpsins. Ísland er í þriðja sæti yfir þau lönd í Evrópu sem verja mestu til menningar. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands.

Þar kemur fram að Ungverjaland og Lettland séu þau Evrópulönd sem verji meiru til menningar og að í sex Evrópuríkjum hafi opinber útgjöld til fjölmiðla verið hærri en hér. Undir menningarmál heyra meðal annars framlög ríkis og sveitarfélaga til leikhúsa, safna og tónlistarhúsa, auk ýmissa annarra útgjalda sem varða listir og menningu. Árið 2018 voru stærstu kostnaðarliðirnir laun og kaup á vörum og þjónustu, samtals um 73% af heildarútgjöldum málaflokksins.

Í tölum Hagstofu kemur fram að hlutfall opinberra útgjalda til menningarmála hafi haldist svipað undanfarinn áratug, það hafi verið lægst árið 2016 þegar það var 2,2% og hæst 2013 þegar það var 2,6%.  Á verðlagi ársins 2018 voru útgjöldin rúmlega 29 milljarðar króna bæði 2009 og 2018 en þau fóru lægst í rúma 25 milljarða króna árið 2012.

Útgjöld hins opinbera til fjölmiðla voru tæplega 6,5 milljarðar króna árið 2018. Hlutfall útgjalda til fjölmiðla af heildarútgjöldum hefur einnig haldist svipað frá 2009 en fór þó hæst upp í 0,8% árið 2015.