Vill nota alkóhól eða steinolíu til sótthreinsunar

04.08.2020 - 12:35
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja. - Mynd: EPA-EFE / PPD
Kórónuveirufaraldurinn magnast víða um heim, yfirvöld á Indlandi skýrðu frá því að 803 hefur látist úr COVID-19 í gær og 50 þúsund ný tilfelli hefðu verið staðfest í gær. Það er meira en í nokkru öðru landi. Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, ráðleggur fólki að sótthreinsa sig með alkóhóli eða steinolíu.  

Faraldurinn færist í aukana

Faraldurinn virðist færast í mjög aukana í Asíu og á Filippseyjum hafa stjórnvöld fyrirskipað allsherjarlokun í höfuðborginni Manilla og nærliggjandi héruðum. Lokunin nær til um 27 milljóna. Óttast er að heilbrigðiskerfið ráði engan veginn við faraldurinn, yfir 100 þúsund eru sýktir af veirunni og fjölgar ört dag frá degi. Almenningur er hræddur en forsetinn ráðleggur fólki að sótthreinsa sig með alkóhóli, hafi fólki ekki efni á því geti það notað steinolíu.  

18 milljón smit tæplega 700 látin

Nú er vitað um meir en 18 milljón kórónuveirusmit í heiminum og tæplega 700 þúsund sem hafa látist úr COVID-19. Tedros Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, segir að áfram verði að skima, einangra og meðhöndla sjúklinga, rekja og einangra þá sem smitaðir hafi haft samskipti við, þetta verði allt að gera.

Finnar slaka á

Á meðan aðgerðir eru hertar víða um heim hafa Finnar slakað á samkomubanni. Þannig hafa þeir aflétt samkomubanni innanhúss meir en 500 manna. Þá hafa tilmæli um að fólk vinni heima hjá sér verið felld úr gildi. Finnar skiptust mjög í tvö horn í afstöðu sinni til heimavinnu. Prófessor Jari Hakanen við Lýðheilsustofnun Finnlands segir að margir óski þess að halda áfram að vinna heima. 

Margir hafa saknað vinnufélaga

Jari Hakanen sagði jafnframt að rannsóknir bentu til að margir fögnuðu því að fá að fara aftur á vinnustað sinn, fólk hefði saknað þess að geta ekki hitt vinnufélagana og geta skipst á skoðunum og hugmyndum. Tilslakanirnar hafa verið gagnrýndar nokkuð og bent á að þó að Finnum hafi gengið tiltölulega vel í baráttunni við kórónuveiruna hafi tilfellum fjölgað á síðustu dögum.
 

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi