Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tvö innanlandssmit í Færeyjum

04.08.2020 - 12:43
epa06016625 The harbour of the country's capital Torshavn, Faroe Islands, 08 June 2017.  EPA/GEORGIOS KEFALAS
 Mynd: EPA - KEYSTONE
Tvö ný kórónuveirusmit hafa nú greinst í Færeyjum. Þetta staðfestir Lars Fodgaard Møller, landlæknir Færeyja, í samtali við færeyska ríkisútvarpið Kringvarpið. Báðir hinna smituðu tóku þátt í Ólafsvöku, sem haldin var hátíðleg síðustu helgina í júlí , en tengjast ekki að öðru leiti.

Kringvarpið segir einn til viðbótar hafa sem einnig tók þátt í Ólafsvöku hafa greinst með COVID-19, sá einstaklingur er hins vegar ekki lengur í Færeyjum heldur er hann farin aftur til Danmerkur.

Kringvarpið hefur eftir heilbrigðisyfirvöldum að ekki sé öruggt að sá sem kominn er til Danmerkur hafi smitast í Færeyjum, en öruggt sé að um innanlandssmit sé að ræða í hinum tveimur tilfellunum.

Møller hvetur Færeyinga til að taka fréttunum af alvöru. Staðan nú sé áhyggjuefni. Taka þurfi málin föstum tökum og leggja þurfi mikla vinnu í að rekja smitin.

„Ef við tökum okkur ekki taki núna er veruleg hætta á að smitin festi sig í sessi í Færeyjum,“ segir hann. „Það sem veldur áhyggjum er  að hér er talað um  þrjú sjálfstæð smit.“

Boðað hefur verið til fundar hjá ríkisstjórn landsins og sóttvarnarnefndinni vegna málsins.