Sýknaðir af mútubrotum - sakfelldir fyrir umboðssvik

04.08.2020 - 16:56
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Fyrrverandi þjónustustjóri hjá Isavia og framkvæmdastjóri tæknifyrirtækis voru fyrir skömmu sakfelldir fyrir umboðssvik í tengslum við kaup Isavia á miðum í bílastæðahlið fyrir nokkrum árum. Þjónustustjórinn fyrrverandi hlaut tólf mánaða dóm en þar af voru níu mánuðir skilorðsbundnir. Framkvæmdastjórinn hlaut tíu mánaða skilborðsbundna refsingu. Mennirnir voru hins vegar sýknaðir af ákæru um mútubrot.

Mönnunum var gert að greiða Isavia tæpar níu milljónir króna auk vaxta. Þjónustustjóranum var jafnframt gert að sæta upptöku á eignarhlutum sínum í fasteign í Garðabæ upp á 3,5 milljónir og framkvæmdastjórinn á eignarhlut sínum í fasteign í Reykjanesbæ fyrir sömu upphæð.

Fram kom í ákæru héraðssaksóknara að rannsókn málsins hafi hafist með kæru Isavia í júlí á síðasta ári.  Isavia hafði þá borist upplýsingar um brotin frá fyrrverandi starfsmanni tæknifyrirtækisins. Samkvæmt ákæru hafði uppljóstrarinn átt í samskiptum við þjónustustjórann hjá Isavia um miðakaupin og haft vitneskju um brotin. Ekki þótt hins vegar ástæða til ákæra hann. 

 

Isavia hafði þá ákveðið að hætta viðskiptum við norskt félag um kaup á bílastæðamiðum og beint í staðinn viðskiptum sínum til hins íslenska tæknifyrirtækis. Í ákærunni var það sagt hafa  gerst að frumkvæði þjónustustjórans sem hafði umsjón með bílastæðum Isavia við Keflavíkurflugvöll.

Saksóknari sagði að þegar Isavia keypti 760 þúsund aðgangsmiða í júní 2015 hafi þjónustustjórinn í krafti stöðu sinnar séð til þess að Isavia borgaði óeðlilega hátt verð.  Hann og framkvæmdastjórinn hefðu gert með sér samkomulag um að skipta ávinningnum sín á milli og að sami háttur hafi verið hafður á tæpu ári seinna þegar aftur voru keyptir 760 þúsund aðgangsmiða. 

 

Mennirnir tveir neituðu báðir sök. Þjónustustjórinn sagði ásakanir uppljóstrarans hafa verið tilhæfulausar og í skýrslutöku hjá lögreglu lýsti hann honum sem manni í hefndarhug.  

Í dómi héraðsdóms kemur fram að hann hafi neitað að tjá sig í skýrslutökum hjá lögreglu.  Sagðist hann hafa gert það vegna þeirrar reynslu sem hann hefði búið yfir sem fyrrverandi lögreglumaður. 

Héraðsdómur sakfelldi þjónustustjórann fyrir umboðssvik og peningaþvætti. Sakir hans hafi verið miklar þar sem hann hefði átt frumkvæði að verðsamráðinu.  Framkvæmdastjórinn var dæmdur fyrir hlutdeild í umboðssvikum og peningaþvætti. Hvorugur hefur áður hlotið dóm.

Héraðsdómur segir þjónustustjórann hafa með brotum sínum misnotað aðstöðu sína og brotið gegn starfsskyldum sínum. Hann hafi haft frumkvæði að því að Isavia greiddi ríflega átta milljónir króna meira fyrir miða í bílastæðahlið félagsins við Keflavíkurflugvöll.  

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi