Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Stjórn Hinsegin daga segir stöðuna vonbrigði

Mynd: Hinsegin dagar í Reykjavík / Hinsegin dagar í Reykjavík

Stjórn Hinsegin daga segir stöðuna vonbrigði

04.08.2020 - 14:41

Höfundar

Ráðgert var að hefja hátíðarhöld hinsegin daga í dag og átti veislan að standa fram á mánudag með þéttri dagskrá fræðsluviðburða og litríkri skemmtun. Hátíðin er í raun hafin en vegna samkomutakmarkanna hafa flestir viðburðir hennar verið blásnir af.

Formaður Hinsegin daga, Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson, segir óhætt að fullyrða að forsvarsfólk hátíðarinnar og hinsegin samfélagið standi frammi fyrir breyttum veruleika. „Við ætluðum að fara af stað með alls konar viðburði, fræðslu og skemmtanir, gleðigöngur og hitt og þetta en staðan er talsvert önnur,“ segir hann. Dagskrárrit hinsegin daga kom út í síðustu viku og þar er fjöldinn allur af viðburðum auglýstur. Þegar staðan í samfélaginu hins vegar breyttist skjótt fyrir helgi og smit fóru að greinast í auknum mæli tók stjórn hátíðarinnar strax þá ákvörðun að hætta við alla viðburði þar sem fólk hópast saman. „Okkur fannst það vera það ábyrga í stöðunni en við erum að skoða að vera með viðburði á netinu. Svo munum við eins og með fræðsluna fresta henni þar til í vetur og vera þá með svona pop up Hinsegin daga.“

Hann segir að stjórnin hafi að einhverju leyti verið búin undir stöðuna og það var til dæmis ákveðið strax í vor að gangan sjálf yrði með breyttu sniði. „Við vissum að seinni bylgja gæti komið og vorum búin að undirbúa okkur en vissulega eru þetta vonbrigði. Það eru til dæmis ekki nema tvær vikur síðan við héldum að það yrði búið að víkka fjöldatakmarkanir og lengja opnunartíma. Þetta breytist fljótt,“ segir Vilhjálmur.

Hinsegin dagar verða þó áfram á sínum stað á samfélagsmiðlum og í sjónvarpinu þessa viku. Á laugardag verður á dagskrá skemmtiþáttur í tilefni af 20 ára afmæli Gleðigöngunnar á RÚV og á sunnudag er á dagskrá heimildarmyndin Fjaðrafok eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur. Hún fjallar um sýnileikann, saumsporin, skipulagninguna, þróun og þroska Gleðigöngunnar og áhrifin sem hún hefur haft á samfélagið. „Ég hlakka mikið til að sjá hana. Þá fáum við söguna á bak við gönguna, af hverju hún heitir Gleðigangan, hvaða fólk stendur að baki henni og hvaða hugsjónir,“ segir Vilhjálmur.

Dagskrá Hinsegin daga heldur áfram að mótast eftir veðri og vindum og best er að nálgast hana á Facebook-síðu Hinsegin daga þar sem hún er reglulega uppfærð.

Rætt var við Vilhjálm Inga Vilhjálmsson í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Innlent

Viðburðir á vegum Hinsegin daga falla niður

Menningarefni

Mála homma og lesbíur upp sem brjálæðinga

Stjórnmál

Ósáttur við umfjöllun RÚV um stöðu hinsegin fólks