Skýra reglur um samkomutakmarkanir

04.08.2020 - 14:50
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, hefur samþykkt tillögu Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, um að gera breytingar á auglýsingu um samgöngutakmarkanir vegna COVID-19 faraldursins sem var birt 30. júlí.

Samkvæmt reglum sem greint er frá í auglýsingunni og gilda frá 1. til 13. ágúst mega aðeins 100 manns koma saman. Í nýrri útgáfu auglýsingarinnar segir að matvöruverslunum sé heimilt að hafa allt að 100 manns inni í einu og að ef þær eru stærri en 1.000 fermetrar þá sé heimilt að hleypa til viðbótar einum viðskiptavin inn fyrir hverja 10 fermetra, umfram 1.000 fermetra, þó að hámarki 200 viðskiptavinum í allt. 

Hvað almenningssamgöngur varðar þá er nú kveðið skýrar á um það að í ferðum sem taka lengri tíma en 30 mínútur skuli nota andlitsgrímu. Þá á að skýra betur um reglur á sund- og baðstöðum. Þær eru þannig að aldrei má vera meira en helmingur af leyfilegum hámarks gestafjölda, samkvæmt starfsleyfi. Börn sem eru fædd árið 2015 og síðar eru ekki talin með í gestafjölda. Sóttvarnalæknir ætlar að gefa út nánari leiðbeiningar um sund- og baðstaði vegna COVID-19 og eins leiðbeiningar fyrir líkamsræktarstöðvar. Þetta ákvæði nær einnig til baðstaða í náttúrunni eftir því sem við á.

Samkvæmt breytingunum verður skýrt í auglýsingunni að ekki verður heimilt að veita tímabundið leyfi fyrir skemmtunum, svo sem tónleikum, dansleikjum, brennum eða öðrum viðburðum sem ætla má að dragi að sér hóp fólks eftir klukkan 23:00. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi