Sjónræn plata Beyoncé upphefur sögu og menningu svartra

Mynd með færslu
 Mynd: Disney+

Sjónræn plata Beyoncé upphefur sögu og menningu svartra

04.08.2020 - 16:26
Sjónræn plata söngkonunnar Beyoncé, Black is King, var frumsýnd á Disney+ 31. júlí. Myndin er heilmikið sjónarspil sem fagnar afrískri menningu, kynnir sögu og hefðir svartra og er þannig vel tímasett inn í mótmæli og réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum sem hefur verið fyrirferðamikil síðustu mánuði eftir morðið á George Floyd.

Þegar Beyoncé tilkynnti um útgáfu myndarinnar sagði hún hana vera ástríðuverkefni sem hún hefði unnið að dag og nótt síðastliðið ár. Myndin byggir á plötunni The Lion King: The Gift sem Beyoncé gaf út í fyrra í tengslum við endurútgáfu kvikmyndarinnar The Lion King þar sem hún talaði fyrir Nölu.

Þá lýsti hún plötunni sem eins konar ástarbréfi til Afríku en lögin voru samin og flutt til að endurspegla frásögn kvikmyndarinnar en áttu á sama tíma að gefa hlustandanum tækifæri á að skapa sinn eigin myndheim. Lögin á plötunni voru unnin bæði með bandarískum og afrískum „pródúserum“ og fjöldinn allur af afrísku tónlistarfólki kemur sömuleiðis að þeim. 

Mynd með færslu
 Mynd: Disney+
Fjölmargir koma að gerð myndarinnar.

Black is King er vægast sagt sjónrænt augnakonfekt, 86 mínútur af stórfenglegum klæðnaði, dansi og tónlist sem sækir augljósan innblástur í afríska menningu. Í grófum dráttum fylgir myndin ferðalagi Simba, sem flestir ættu að þekkja vel úr Lion King, í leit að sjálfsmynd. Beyoncé er sjálf handritshöfundur myndarinnar, yfirframleiðandi og meðal leikstjóra en listamenn hvaðanæva að úr heiminum komu að verkinu með henni.

Beyoncé segir að upphaflega hafi efnið í myndina verið tekið upp sem hluti af The Gift til að fagna lífi, fegurð og  uppruna svartra en hún hefði ekki getað ímyndað sér að ári síðar myndi sú vinna sem hún lagði í verkið þjóna stærri tilgangi og vísar þar til réttindabaráttu svartra.

Hún segir skilaboð myndarinnar eigi enn betur við í dag þar sem fólk um allan heim sé í sögulegri vegferð, allir séu að leita að öryggi og ljósi og margir vilji breytingar. Með myndinni vilji hún kynna sögu svartra og afrískar hefðir með nútímalegu ívafi og skilaboðum um hvað það þýði í rauninni að finna sjálfsmynd sína og byggja upp arfleið.

Mynd með færslu
 Mynd: Disney+
Black is King er mikið sjónarspil.

Meðal þeirra sem koma fram með Beyoncé í myndinni eru móðir hennar, eiginmaðurinn Jay-Z og börnin þeirra, Blue Ivy, Rumi og Sir. Samstarfskonu hennar úr hljómsveitinni Destiny´s Child, Kelly Rowland, bregður fyrir og Pharell Williams, Naomie Campbell og Lupita Nyong´o sömuleiðis, auk fjölda annarra söngvara, dansara og leikara. 

Mynd með færslu
 Mynd: Disney+
Beyoncé ásamt dóttur sinni Blue Ivy og Kelly Rowland.

Tengdar fréttir

Erlent

Upptöku af handtöku Floyds lekið á Netið

Popptónlist

Ný mynd Beyoncé skilaboð inn í mótmælaöldu svarts fólks

Með þrjár plötur á Billboard listanum á árinu

Kvikmyndir

Skrifar sjálfa sig inn í baráttusögu svartra