Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segja framferði Bandaríkjanna hreint og klárt einelti

04.08.2020 - 09:30
Erlent · Bandaríkin · Kína · TikTok · viðskipti
epa08516566 A woman opens the Chinese video-sharing app TikTok on her smartphone, in Bhopal, central India, 29 June 2020. India's national government in New Delhi has announced it is banning 59 Chinese phone applications ? including the increasingly-popular apps TikTok, Helo and WeChat ? citing national security concerns. The decision comes amid India's ongoing territorial dispute with China in the Galwan valley of the eastern Himalayan region of Ladakh.  EPA-EFE/SANJEEV GUPTA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kínversk stjórnvöld segja að framferði þeirra bandarísku, þegar kemur að appinu Tik Tok, sé hreinlega einelti. Þetta kom fram í máli Wang Wenbin, talsmanns kínverska utanríkisráðuneytisins, á upplýsingafundi í dag. Donald Trump, Bandaríkjaforseti, gaf Tik Tok í gær sex vikur til að selja starfsemi sína í Bandaríkjunum til fyrirtækis þar í landi.

„Þetta gengur gegn öllum grunvallarreglum markaðarins og eins gegn reglum Alþjóða viðskiptamálastofnunarinnar um gagnsæi og bann við mismunun,“ sagði talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins í dag.  

Trump hafði áður hótað að banna smáforritið í Bandaríkjunum vegna mögulegs öryggisleka og meintra njósna Kínastjórnar í gegnum það. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, hefur lýst sig sammála þessum fyrirtætlunum Trump. Rannsókn á Tik Tok er í gangi í Bandaríkjunum á grundvelli öryggishagsmuna ríkisins. Ástæðan sem gefin hefur verið er sú að í appinu er persónuupplýsingum safnað og samkvæmt reglum í Kína ber fyrirtækinu að afhenda þær kínverska ríkinu, óski það eftir því. 

Wang sagði á fundinum í dag að bandarísk yfirvöld hafi ekki sýnt fram á neinar sannanir þess efnis að Tik Tok ógni öryggi Bandaríkjanna. Einfaldlega sé verið að beita þessum rökum, um ógn við öryggi, í pólitískum tilgangi til að kúga erlent fyrirtæki. 

Microsoft hefur verið í viðræðum við kínverska fyrirtækið ByteDance, sem á Tik Tok, um kaup á starfseminni í Bandaríkjunum.