Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Segir þurfa plan til að lifa með veirunni áfram

04.08.2020 - 08:29
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist hafa mjög miklar áhyggjur af því að samfélagið skorti þolinmæði til að takast á við kórónuveirufaraldurinn. Hann hefur stungið upp á því við stjórnvöld að samráðsvettvangur verði settur á laggirnar sem skoði hvernig samfélagið ætli að takast á við faraldurinn á sama tíma og aðrar áskoranir blasi við.

Þórólfur sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að  hann telji að fólk hafi síðasta vetur litið svo á að klára þyrfti ástandið og svo væri það bara búið og eðlilegt líf tæki við að nýju. Hann hafi margoft varað við því að svo væri ekki, en engu að síður hafi  tekið lengri tíma en hann bjóst við að ná að hemja faraldurinn á heimsvísu. Hann hafi vonast til að á þessum tímapunkti væri faraldurinn  farinn að ganga niður erlendis, en ekki að hann ætti enn eftir að ná hámarki. Íslendingar þurfi því um ókomna tíð að lifa með veirunni, á sama tíma og þeir þurfi að takast á við margs konar áskoranir af öðrum toga og þess vegna  þurfiþeir, að mati Þórólfs, gera ráð fyrir þessu ástandi í lífi sínu.

„Og ég hef stungið upp á því við stjórnvöld að nú yrði settur á laggirnar samstarfsvettvangurum það; bíddu hvernig ætlum við að hafa þetta? Þetta er meira núna en bara sóttvarnarmál  í mínum huga. Það eru fleiri sem þurfa að koma að borðinu og það þarf að taka tillit til ýmissa sjónarmiða. Mín sjónarmið eru fyrst og fremst sóttvarnasjónarmið og ég mun halda þeim náttúrlega alveg á lofti, en þetta er pólitískt mál og þetta er efnahaglegt mál og það eru alls konar viðhorf. Og það er sú óþolinmæði sem ég er farinn að skynja mjög mikið og menn þurfa að reyna að koma sér niður á eitthvert plan; bíðddu hvernig ætlum við að hafa þetta næsta ár, næstu mánuðina?“

Fólk þurfi því að venjast því að þetta séu ekki litlar orrustur heldur langtíma stríð, en markmiðið er að halda veirunni í skefjum og lágmarka skaðann af henni. Þórólfur segist hins vegar skilja vel sjónarmið listamanna og fleiri sem samfélagstakmarkanirnar bitna á.