Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Óeðlilegt að halda eftir 10% kortagreiðslna

Jóhannes Þór Skúlason
 Mynd: Þór Ægisson
„Það jaðrar við lögbrot að kortafyrirtæki haldi eftir greiðslum til fyrirtækja vegna þjónustu sem þegar hefur veitt."

 

Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar í samtali við Fréttablaðið í dag.

Á föstudag tilkynnti greiðslukortafyrirtækið Borgun skilmálabreytingar sem fela í sér að það heldur eftir tíu prósentum af heildarfjárhæð allra færslna á uppgjörum. Um er að ræða svokallaða veltutryggingu sem kortafyrirtæki heldur eftir í sex mánuði. Öll fyrirtæki fá uppgjör einu sinni í mánuði, aldrei örar.

Jóhannes segist skilja að kortafyrirtæki vilji tryggja sig gagnvart aukinni áhættu í viðskiptum en ekki komi til greina að þau haldi eftir tíu prósentum af greiðslum, jafnvel þótt þjónusta hafi verið veitt.

Kortafyrirtækin hafi ekki rétt til að halda slíkum greiðslum eftir segir Jóhannes og jafnframt að Samtök ferðaþjónustunnar hafi láti gera lögfræðiúttekt á því.