Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mjaldrasysturnar eru klárar og kunna á þjálfarana sína

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV

Mjaldrasysturnar eru klárar og kunna á þjálfarana sína

04.08.2020 - 12:33

Höfundar

„Þær eru mjög klárar og mjög skynsamar. Þær þekkja okkur öll í sundur og vita alveg hvernig á að plata okkur og svona,“ segir Vignir Skæringsson einn þeirra sem sér um mjaldrasysturnar Litlu-Gráa og Litlu-Hvíta í Vestmannaeyjum. Hann segir starfið tvímælalaust það skemmtilegasta og fjölbreyttasta sem hann hefur sinnt.

Mjaldrasysturnar eru ólíkar en báðar yndislegar, sagði Vignir í Morgunútvarpinu á Rás 2. „Litla-Hvít, hún er svona aðeins til baka, aðeins feimnari. Litla-Grá hún elskar athygli og er meiri svona prakkari.“

Hann segir þjálfunina fjölbreytta. „Við látum þær gera ýmsar æfingar eins og að synda á vissum hraða og síðan bara æfingar sem þeim finnst vera skemmtilegar. Maður lærir að nota líkamann til að sýna þeim hvað maður vilji að þeir geri. Þeir eru búnir að læra ýmislegt, hvað þeir eiga að gera þegar þú gefur þeim alls konar merki, og maður lætur þá fá mat í staðinn.“ Hann segir þjálfunina byggjast á jákvæðri endurgjöf. Hún sé ekki svo ólík þjálfun hunda.

Mynd með færslu
 Mynd: Hulda G. Geirsdóttir

Litla-Grá og Litla-Hvít dvelja í góðu yfirlæti í húsnæði Sea Life Trust í Vestmannaeyjum. Til stendur að færa þær í sjóinn í Klettsvík á allra næstu vikum, segir Vignir, eða um leið og veður og aðstæður leyfa. Hann segir flutningana í sjálfu sér ekki flókna en þó viðamikla. Um fjörutíu manns komi til með að koma að þeim.

Þjálfararnir halda svo áfram að vinna með mjöldrunum í Klettsvík og fæða þá áfram. „Þær eru búnar að vera það lengi í mannaumsjá að þær í rauninni geta ekkert bjargað sér sjálfar, þannig að við munum hugsa um þær,“ útskýrir hann.

Hulda G. Geirsdóttir, umsjónarmaður Morgunútvarpsins á Rás 2, heimsótti Vigni Skæringsson og þær mjaldrasystur, Litlu-Gráa og Litlu-Hvíta.

 

Tengdar fréttir

Vestmannaeyjabær

„Grunaður njósnari“ gæti orðið vinur mjaldrasystra

Vestmannaeyjabær

Litla grá og Litla hvít láta blóðprufu ekki á sig fá

Náttúra

Mjaldrar með magakveisu

Vestmannaeyjabær

Aðlögun mjaldrasystranna gengur að óskum