Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Miklu meiri þreyta og pirringur vegna Covid-19

04.08.2020 - 12:30
Mynd með færslu
 Mynd: Bergljót Baldursdóttir
Sóley Dröfn Davíðsdóttir, sálfræðingur hjá Kvíðameðferðarstöðinni segir að greina megi miklu meiri þreytu og pirring meðal fólks núna þegar farsóttin hefur tekið sig upp aftur. Þeim hafi fjölgað sem leiti sér aðstoðar sálfræðinga. Fjárhagsáhyggjur eigi þátt í kvíða fólks. 

Aukin ásókn í sálfræðimeðferð

„Bæði tökum við eftir því að það er aukin ásókn til okkar töluvert þannig að það eru mjög margir að leita sér aðstoðar núna

Dæmi eru um að fólk þori ekki að mæta í tíma vegna smithættu og því bjóða margir sálfræðingar einnig upp á fjarfundi.   

Komin þreyta í fólk

„Ég held að það sé núna komin svolítil þreyta í fólk af því fyrst hugsaði fólk ok þetta er bara svona að komast í gegnum skaflinn og svo héldum við að við værum komin í gegnum skaflinn en það er miklu meiri þreyta núna þegar þetta kemur upp aftur og áhyggjur af fjárhagnum og ýmsu.“

Sóley segir að farsóttin geti valdi kvíða hjá heilbrigðu fólki.  „Ég held að það verði erfiðara eftir því sem þetta stendur lengur yfir.“

Ekki hægt að vera endalaust í paník

Hræðslan hafi verið mest fyrst og okkur sé eðlislægt að vera hrædd í ákveðin tíma.

„En svo má venjast öllu og það þarf maður svolítið að passa líka að það er ekki hægt að vera endalaust í panik og ofsahræðslu við eitthvað og þá er hætta á að fólk verði kannski pínu kærulaust af því við erum búin að fara í gegnum óttann og sjá að við erum hér og lífið heldur áfram og allt þetta þannig að maður þarf svolítið að gíra sig upp í það aftur að vanda sig betur upp á smithættuna.“
 
„Ég held að flestir séu kannski aðeins pirraðir yfir því að þetta sé að taki sig upp aftur en hafi samt skilning og grípi til ráðstafana.“