Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar við rannsóknina

04.08.2020 - 22:00
Leitað að Konráð Gíslasyni 1. ágúst 2020.
 Mynd: Facebook
Ekkert hefur spurst til 27 ára karlmanns sem fór af heimili sínu í Brussel á fimmtudagsmorgun. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vinnur með belgískum lögregluyfirvöldum að rannsókn málsins.

Sjá einnig: Leitað að ungum Íslendingi í Brussel

Konráð Hrafnkelsson hefur verið búsettur í Brussel með kærustu sinni frá 2018. Hann var í flugnámi og yfirgaf heimili sitt á hjóli að morgni fimmtudagsins 30 júlí til að taka próf. Hann sást síðast á McDonalds í miðbæ borgarinnar klukkan níu um morguninn en síðan þá hefur ekkert spurst til hans. Lögreglunni í Brussel var fljótlega gert viðvart um hvafið. Ekki er talið að Konráð sé í hættu. 

Segir málið í eðlilegum farvegi ytra

Karl Steinar Valsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir að lögreglan sé í samstarfi við lögregluyfirvöld í Brussel við vinnslu málsins. Segir hann að rannsóknin sé í eðlilegum farvegi þar úti. Lögreglan vinnur nú úr þeim gögnum sem aflað hefur verið síðustu daga. 

Sjá einnig: Vinir og aðstandendur Konráðs leita hans í Brussel

Kærasta Konráðs og fölskylda hafa lýst eftir honum á samfélagsmiðlum og búið er að lýsa eftir honum víða í Belgíu, að sögn fjölskyldunnar. Það hefur hingað til ekki skilað árangri og engar vísbendingar borist um afdrif hans. Um tuttugu vinir og aðstandendur leituðu áranguslaust á mánudag og eru skyldmenni Konráðs á leið til Brussel í fyrramálið til að hjálpa til við frekari leit.