Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Lætur reyna á heimildir til að tryggja öryggi ríkisins

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Hæstiréttur hefur veitt íslenska ríkinu leyfi til áfrýja dómi Landsréttar í máli Redouane Naoui sem var fyrir níu árum dæmdur fyrir morð á veitingastaðnum Monte Carlo. Landsréttur sneri við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og felldi úr gildi þá ákvörðun um að vísa bæri Nauoi úr landi.

Íslenska ríkið telur málið hafa verulegt gildi fyrir heimildir þess til að tryggja öryggi ríkisins og vernd almannahagsmuna með brottvísun einstaklinga sem gerst hafa sekir um alvarleg afbrot.

Fram kemur í málskotsbeiðni íslenska ríkisins að það telji dóm Landsréttar í málinu rangan. Dómstóllinn hafi dregið rangar ályktanir af úrskurði kærunefndar útlendinga.  Þá  reyni í málinu á túlkun á réttinum til friðhelgis einkalífs og fjölskyldu.

Naoui var dæmdur í 16 ára fangelsi árið 2011. Tveimur árum eftir að Hæstiréttur staðfesti refsinguna tók Útlendingastofnun þá ákvörðun að vísa honum úr landi. Honum var jafnframt bannað að snúa aftur í 20 ár. Kærunefnd útlendingamála staðfesti ákvörðunina þremur árum seinna.

Naoui lét reyna á brottvísunina fyrir dómstólum. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði kröfu hans en stytti endurkomubannið niður í tíu ár. Hann skaut niðurstöðunni til Landsréttar sem felldi ákvörðunina um brottvísun úr gildi. 

Landsréttur taldi Útlendingastofnun ekki hafa gætt þess að afla fullnægjandi upplýsinga um tengsl Naoui við börn sín.  Þá hefði komið í ljós að hann hefði notið umgengnisréttar við bæði börn sín áður en hann fór í fangelsi. 

Fram kom í dómi héraðsdóms að Naoui hefði verið fyrirmyndarfangi, aldrei lent upp á kant við aðra og látið öll vímuefni vera. Hann ákvað að þiggja ekki reynslulausn þegar hún stóð honum til boða þar sem til stóð að vísa honum úr landi nánast um leið.  

Naoui fluttist til Íslands fyrir 16 árum. Hann fékk dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara og búsetuleyfi árið 2010.  Hann á börn með tveimur íslenskum konum og hefur notið umgengnisréttar við þau að höfðu samráði við mæðurnar.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV