Jóakim prins útskrifaður af spítala

04.08.2020 - 15:38
Jóakim Danaprins
 Mynd: Steen Brogaard - Kongehuset.dk
Jóakim prins, yngri sonur Margrétar Þórhildar Danadrottningar og Hinriks heitins Danaprins, hefur nú verið útskrifaður af háskólasjúkrahúsinu í Toulouse í Frakklandi, en þar hefur prinsinn dvalið eftir að hann undirgekkst þar uppskurð vegna blóðtappa í heila.

Í fréttatilkynningu frá dönsku hirðinni segir að það sé mat lækna að Jóakim prins hafi náð góðri heilsu eftir aðgerðina. Hann dvelst nú á Château de Cayx, vínbúgarði fjölskyldunnar í Suður-Frakklandi.

Jóakim Danaprins, sem heitir fullu nafni Joachim Holger Waldemar Christian og er einnig greifi af Monpezat, dvaldi á vínbúgarðinum þegar hann veiktist 24. júlí síðastliðinn. Hann var fyrst fluttur á sjúkrahús í bænum Cahors sem er skammt frá búgarðinum, en síðan fluttur á háskólasjúkrahúsið í Toulouse þar sem hann undirgekkst aðgerðina sama dag. 

Í tilkynningunni segir að konungsfjölskyldan óski eftir því að prinsinn fái svigrúm og frið til að ná heilsu í ró og næði. 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi