Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ísland „rautt“ ásamt Frakklandi og Hollandi

04.08.2020 - 10:50
Skimun ÍE á Akranesi 2. ágúst 2020
 Mynd: Almannavarnadeild ríkislögregl
Ísland gæti orðið „rautt svæði“ ásamt Frakklandi og Hollandi, samkvæmt norskum skilgreiningum. Farþegar sem koma frá löndum þar sem nýgengi smita er yfir 20 þurfa að sæta sóttkví við komuna til Noregs. Sóttvarnayfirvöld í Noregi hafa þó ekki gefið út nýjan lista yfir hááhættusvæði en von er á honum í lok vikunnar.

Samkvæmt uppfærðum lista hjá Sóttvarnastofnun Evrópu er nýgengi smita á Íslandi nú 21,3 á hverja 100 þúsund íbúa. Samkvæmt covid.is er þessi tala 18,5.

Til samanburðar má nefna að nýgengi smita á Bretlandi er 14,3, 10,8 í Þýskalandi en 21,7 í Frakklandi. Ísland ásamt Svíþjóð skera sig úr varðandi Norðurlandaþjóðirnar en í Svíþjóð er nýgengi smita um 29. Í Noregi er nýgengið 4,5, Finnlandi 2,3 og 12,6 í Danmörku.

Fram kemur á vef VG stendur ekki til að breyta lista yfir þau lönd sem eru skilgreind há-áhættusvæði.  Ekki sé eingöngu skoðað nýgengi smita þegar slík ákvörðun sé tekin heldur eru einnig tölur um hlutfall jákvæðra sýna úr sýnatökum skoðaðar sem og hvert sé hlutfall smitaðra af höfðatölu. 

VG telur líklegt að Ísland verði skilgreint sem rautt og að ferðamenn þaðan þurfi því að sæta sóttkví.

Verið sé að skoða að setja Tékkland, Sviss og Pólland í þennan flokk en samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinu uppfæra stjórnvöld þennan lista í lok vikunnar.

83 eru í einangrun hér á landi með virkt smit og um 734 í sóttkví.  Hlutfall jákvæðra sýna úr sýnatöku í gær var tæplega 0,9 prósent.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV