Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hafnar gagnrýni FÍB og segir að kostnaður myndi lækka

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir að komi lög um samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum til framkvæmda gæti kostnaður við vegaframkvæmdir lækkað um 20%. Kostnaður við Vaðlaheiðargöng hefði líklega verið lægri hefði framkvæmdin verið á þennan hátt.

Í lögunum er gert ráð fyrir að Vegagerðin geti samið við einkaaðila um vegaframkvæmdir. Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur gagnrýnt frumvarpið og segir að það sé 33% dýrara að fela einkaaðilum vegaframkvæmdir en ríkinu.

Sigurður Ingi segir að þeir útreikningar taki mið af alþjóðlegum framkvæmdum, við gerð frumvarpsins hafi hann horft til Noregs. Þar hafi verið sett á fót stofnun um samvinnuframkvæmdir með það markmið að lækka kostnað um 20%. Með nýju lögunum fái Vegagerðin tækifæri til að þróa slíkar leiðir.

Sigurður Ingi segir að Vegagerðin muni taka að sér hlutverk slíkrar stofnunar. Hann segir að Vaðlaheiðargöngin séu dæmi um framkvæmd sem hefði getað kostað minna, hefði hún verið unnin í samvinnu. Hann segir að Vegagerðin muni horfa til þessarar leiðar við framkvæmd stærri verkefna sem eru fyrirhuguð, eins og Ölfusárbrúar og Sundabrautar.

„Þar sem eru stærri verkefni þar sem við tökum kannski aðeins lengri tíma í hönnun, fáum fleiri að með nýjar hugmyndir, nýja tækni í því skyni að búa til ódýrari leiðir. En jafn öruggar, eða jafnvel öruggari og uppfylla loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar einnig,“ segir Sigurður Ingi.