Vesturbakki Jórdan, oftast kallaður bara Vesturbakkinn, hefur verið undir hernámi Ísraels í áratugi eða allt frá Sex daga stríðinu 1967. Grafík inn Til Vesturbakkans telst rúmlega 5.600 ferkílómetra svæði. Samkvæmt Óslóarsamkomulaginu er honum skipt upp í nokkur svæði, eitt sem Palestínumenn ættu að ráða yfir, annað þar sem Palestínumenn og Ísrael ættu að fara með sameiginlega stjórn og svo þriðja svæðið sem Ísraelar ráða yfir sem er um 60 prósent af Vesturbakkanum. Þar hafa verið byggðar minnst 250 landtökubyggðir og í þeim búa yfir 600 þúsund manns.
„Þú verður að muna að þetta eru ekki bara landtökufólk,“ segir Mariam Barghouti blaðamaður. Fréttastofa ræddi við hana frá Ramallah. „Með þeim koma einnig ísraelskur her og hermenn sem verja það. Þetta er ekki bara landtakan, heldur líka herstöðvar sem dreifðar eru um Vesturbakkann.“
Íbúar landtökubyggða fá ýmis konar fríðindi, til dæmis greiða þeir lægri skatta. Landtökubyggðum fylgir líka vegakerfi, sem tengir þær við Ísrael.
„Þau hafa sundrað okkur. Það eru götur á Vesturbakkanum sem eru aðeins fyrir ísraelskt landtökufólk eða ferðamenn. En ekki fyrir Palestínumenn. Palestínumenn eru ekki leyfðir þar.“