Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fyrsta farþegaferðin út í geim framundan

Mynd með færslu
Sir Richard Branson kynnir geimþotuna sem fyrirtæki hans, Virgin Galactic, starfrækir. Mynd:
Mögulegt er að fyrsta farþegaferð Virgin Galactic, fyrirtækis Richards Branson, út í geim verði farin snemma á næsta ári.

Að sögn talsfólks fyrirtækisins hafa 600 manns þegar greitt um 250 þúsund Bandaríkjadali hver, fyrir ferðalag út fyrir gufuhvolf jarðarinnar. Það jafngildir um 34 milljónum íslenskra króna.

Tilraunaferðir verða farnar þegar í haust og ef þær ganga vel verður lagt í hann með farþega á fyrsta fjórðungi næsta árs.

Slíkt ferðalag er ekki einfalt. Sérútbúin flugvél flýgur með geimfarið upp í mikla hæð. Þá verður kveikt á vélum geimfarsins, sem er blanda af eldflaug og flugvél, og þotið út fyrir gufuhvolfið með hröðun sem jafngildir þrisvar og hálfu sinni aðdráttarafli jarðar.

Þegar komið er í ríflega 80 kílómetra fjarlægð frá jörðu verður slökkt á hreyflunum sem veldur því að farþegarnir svífa um í þyngdarleysi í nokkrar mínútur.

Þá hefst heimferðin sem lýkur með lendingu þar sem heitir SpaceportAmerica sem hefur aðsetur í eyðimörk í Nýju Mexíkó.