Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fyrsta deitið í fimmtugsafmæli Loga Bergmann

Mynd: Úr einkasafni / .

Fyrsta deitið í fimmtugsafmæli Loga Bergmann

04.08.2020 - 14:17

Höfundar

„Jú,jú, þetta var alltaf föstudagur, laugardagur, jafnvel teygði sig yfir á fimmtu- og miðvikudag,“ segir grínarinn, Twittermennið og ketó-snapparinn Tómas Steindórsson frá Hellu. Hann var fastagestur á galeiðunni lengi vel eftir að hann flutti til Reykjavíkur um tvítugt en þar hafði hann varnarþing á barnum Bakkusi.

Tómas hefur þó aðeins slakað á gjálífinu nú þegar hann er orðinn faðir en hann var gestur Jakobs Birgissonar í Sumarsögum. Hann lýsir sveitapiltsins undrun og draumi þegar hann steig fyrst inn á barinn Bakkus í Reykjavík árið 2012: „Klukkan tíu á þriðjudegi þarna inni voru kannski hundrað manns. Þetta var eitthvað sem maður hafði aldrei séð áður, bara besta kvöld lífs míns.“ Næturlífið heltók Tómas næstu mánuði og hann flosnaði fljótt upp úr námi í Kennaraskólanum og fór á vinnumarkaðinn. „Ég tók dálitlu ástfóstri við Bakkusinn,“ segir Tómas. „Jú, jú, þetta var alltaf föstudagur, laugardagur, jafnvel teygði sig yfir á fimmtu- og miðvikudag. Þetta var bara svo gaman. Ég þekkti ekki að svona mikið af fólki gæti safnast saman. Þetta voru alltaf bara við tíu vinirnir eða Hvíta húsið og Skítamórall að spila.“

Þekkti engan í Skítamóral

Tómas byrjaði að vinna í leikskóla og félagsmiðstöð. „Var eitthvað að reyna að finna mig,“ segir hann hlæjandi. Hann fann þó maka á endanum en kærasta hans er dansarinn, fjölmiðla- og sirkuskonan Margrét Erla Maack, en þau eiga nú dóttur saman. „Ég hef alltaf haft mjög gaman af frægum Íslendingum. Lengi vel þekkti ég engan frægan, bara fyrstu 25 árin. Ég var á Hellu og enginn frægur þar.“ Hann hafi einstaka sinnum borið Skítamóral augum en hafði ekki þekkt neinn þeirra. „Lengi vel var frægasti vinur minn Rúnar Örn Marínóson, gítarleikari í Oyama. En í Reykjavík fékk maður fræga fólkið beint í æð. Fyrsta official deitið hjá okkur Margréti var í fimmtugsafmælinu hjá Loga Bergmann.“

Margrét og hann kynntust eins og svo mörg pör á Tinder. „Fyrsta deitið horfðum við á Útsvar með bland í poka. En fyrsta deitið þar sem ég var „sýndur“ var í fimmtugsafmæli Loga Bergmanns í Iðnó.“ Þar komst Tómas sko aldeilis í feitt. „Ég var svo starstrucked. Ég held ég hafi tekið fjórar selfies, eina með Sigga Hall, og gott ef Valtarinn [íþróttafréttamaðurinn Valtýr Björn] var ekki þarna líka. Ég eiginlega varð mér til skammar, maður var bara stanslaust á snappinu.“

Tók óvart mynd með flassi af Audda Blö

Tómas segist ekki vita hvaðan þetta komi en hann sé hreinlega algjör „sökker“ fyrir frægum Íslendingum. „Mér finnst þetta bara ógeðslega fyndið dæmi. Og því minna frægir sem þeir eru, svona íslensk D-list celebrities finnst mér alveg snilld.“ Hann tekur dæmi um einu manneskjuna sem hefur neitað honum í selfie, Hildi Líf Higgins, sem varð alræmd fyrir að skipuleggja svokallað VIP-partí á Goldfinger fyrir tæpum áratug síðan. Hann segir afmælið hjá Loga Bergmann vera í hálfgerðri móðu í minninu. „Ég man ég tók mynd af Audda Blö og það kom óvart flash. Þá hætti ég.“

Hann viðurkennir að hafa fengið skammir í hattinn frá frúnni eftir kvöldið. „En ég sé ekki eftir neinu. Við eigum saman barn í dag. Hef ekkert hitt Loga Bergmann eftir þetta.“ Nýlega hefur Tómas svo verið boðið á forsýningar á bíómyndum. „Mér finnst það geggjað. Þá hafa verið teknar myndir í blöðin, og nú er grínið hjá mér að láta titla mig ketó-snappara á öllum myndum. Ég hef aldrei ketó-snappað á ævinni en þetta er góður titill.“

Jakob Birgisson ræddi við Tómas Steindórsson í Sumarsögum. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni í útvarpsspilara RÚV.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Notuðu skilríkin sem innbrotsmaðurinn skildi eftir

Menningarefni

Lögregluþjón dreymir um að komast í kvenfélagastarf

Bókmenntir

„Nú verð ég drepin fyrir að tala illa um fólk“

Menningarefni

Djammaði í Amsterdam með eiturlyfjabarón sem var myrtur