Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Danir óttast að faraldurinn gæti farið úr böndum

04.08.2020 - 04:25
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Ef útbreiðsla kórónuveirusmita í Danmörku heldur áfram að þróast með líkum hætti og undanfarna daga gæti verið hætta á að faraldurinn fari úr böndunum.

Þetta er mat Kåre Mølbak hjá rannsóknarstofnun danska ríkisins í ónæmisfræðum (Statens Serum Institut). DR greinir frá.

Frá því á föstudag hafa 207 ný kórónuveirutilfelli greinst þar í landi sem nemur hálfu prósenti þeirra sem prófuð eru við veirunni. Fram að þess hefur hlutfallið verið 0,2 til 0,4%.

Mikil fjölgun í Árósum

Kórónuveirutilfellum fjölgaði mjög undanfarna viku í Árósum. Um langa hríð hafði nánast ekkert smit fundist í borginni en nú um helgina greindust fimmtíu manns með Covid-19.

Að mati heilbrigðisyfirvalda í Danmörku er atburðarásin í Árósum dæmigerð fyrir hve hratt veiran getur dreift sér á örskömmum tíma. Grunur leikur á að upphaf þessarar miklu útbreiðslu megi rekja til fjölmennra viðburða þar í borg um síðustu helgi.

Hætta á veldisvexti

Vísindamenn sem fylgjast með þróuninni í Danmörku óttast að nú geti orðið veldisvöxtur í smitum og því sé afar brýnt að grípa inn í þróunina umsvifalaust.

Mikilvægt sé að huga vel að persónulegu hreinlæti, ástunda sprittnotkun, huga að fjarlægð milli fólks og því að nota andlitsgrímur á fjölmennum stöðum á borð við almenningsfarartæki.

Sérfræðingar benda jafnframt á að nauðsynlegt geti reynst að yfirvöld bjóði þeim sem þurfa að vera í sóttkví dvöl á hóteli eða annarri slíkri aðstöðu til að tryggja öryggi þeirra sem búa á sama heimili.