Atvinnuleysið tók ekki kipp

04.08.2020 - 14:51
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Færri sóttu um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun í júlí en áætlað var, að sögn Unnar Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar. Almennt atvinnuleysi í júlí var svipað og í júní, um 7,3 til 7,4 prósent, samkvæmt bráðabirgðatalningu.

„Það er minna heldur en við bjuggumst við,“ segir Unnur. „Það eru færri sem hafa sótt um heldur en við óttuðumst þannig að mánaðamótin eru í rauninni að koma betur út en ég átti von á,“ segir hún. Um 16.000 manns fengu greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði í júní og fjöldinn var svo til sá sami í júlí. 

Unnur kveðst vona að skýringin á því að ekki hafi fjölgað í hópi atvinnulausra sé sú að fólk hafi fengið vinnu á ný, eða haldið fyrra starfi. „Það hefur náttúrulega ræst úr þessu ferðasumri þannig að kannski hafa margir haldið vinnunni út sumarið og núna fram á haust og vonandi hafa einhverjir getað fundið sér nýja vinnu og svo framvegis. Það er ómögulegt að segja en þetta segja tölurnar, það er óbreytt staða.“

Snarfækkað hefur á hlutabótaleiðinni

Umsóknir frá um 30.000 manns um hlutabótaleið bárust í apríl og maí þegar mest var. Þeim hefur snarfækkað, sem þiggja slíkar bætur, og eru þeir nú á bilinu 3.000 til 3.500 manns.

Í júní varð mikill flöskuháls við afgreiðslu umsókna hjá Vinnumálastofnun. Unnur segir að staðan sé að lagast. Fyrirkomulaginu hafi verið breytt og starfsfólki fjölgað. Unnur segir að vel hafi gengið að vinna á kúfnum en að því sé ekki alveg lokið. Hún kveðst bjartsýn á að það takist í þessum mánuði. Í venjulegu árferði tekur um 6 til 8 vikur að afgreiða umsókn um greiðslur. Unnur segir að í sumum tilfellum taki það mun styttri tíma, til dæmis þegar umsóknir eru einfaldar og öll gögn liggi strax fyrir. 

Nokkuð um leiðréttingar á hlutabótaleið

Nokkuð mikið hefur verið um að það hafi þurft að leiðrétta hlutabæturnar. Fólk átti að áætla laun sín og þegar þær áætlanir voru bornar saman við tölur um laun frá Ríkisskattstjóra kom í ljós að í sumum tilvikum hafði fólk fengið of háar greiðslur, og í öðrum of lágar. 

Fréttin var uppfærð klukkan 15:59.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi