Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áttu ekki von á öllum íslensku ferðamönnunum

Mynd með færslu
 Mynd: Þórir Níels Kjartansson - RÚV
Ekki gátu allir veitingastaðir í Mýrdalshreppi haft opið nema hluta dags í sumar þar sem fjöldi starfsfólks var þegar farið á brott vegna þess hruns sem varð í ferðaþjónustunni í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

Þetta sagði Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Íslendingar hafa verið duglegir að ferðast um landið í sumar og sagði hún Mýrdælinga engan veginn hafa verið undir þennan fjölda búna.

„Íslendingar voru mjög duglegir að heimsækja okkur í júní og júlí. Tjaldstæðið hér var fullt og allir veitingastaður höfðu nóg að gera,“ sagði Þorbjörg og kvað það hafa komið á óvart hve mikið var sótt í gistingu og afþreyingu.

Verr gekk hins vegar að manna störfin til að sinna ferðafólkinu. „Það voru ekki allir veitingastaðir sem gátu haft opið nema seinni part dags og þeir hefðu getað annað miklu meira,“ segir Þorbjörg.

Útlendingar voru fjölmennir í hópi starfsmanna í ferðþjónustufyrirtækja á svæðinu og voru margir þeirra þegar farnir af landi brott. Ákvæði í lögum kveður á um að fólk með erlent ríkisfang sem er á uppsagnarfresti geti dvalið innan EES svæðisins í þrjá mánuði og leitað sér að vinnu.

„Margir voru komnir heim til sín og erfitt að kalla í þá. Aðrir voru kannski búnir að gera einhver önnur plön og atvinnurekendur gátu náttúrulega ekki lofað neinni framtíðarvinnu. Það var kannski verið að kalla í fólk viku fyrir viku.“ Slíkt fyrirkomulag henti fæstum vel enda geti verið flókið að fara á og af atvinnuleysisbótum.

Gerir ráð fyrir 30% tekjusamdrætti

Að sögn Þorbjargar eru það óneitanlega vonbrigði að kórónuveirusmit séu nú aftur að skjóta upp kollinum. Erlendir ferðamenn hafi verið farnir að koma aftur, þó þeir væru í minnihluta og heimamenn vonuðust til að þeim færi fjölgandi með haustinu er ferðum Íslendinga fækkar. Með aukinni smittíðni verði það hins vegar ólíklegra.

„Nú veit maður ekki hvernig hver dagur fer og maður bara fylgist með fréttum. Við erum náttúrlega bara að pakka í vörn og undirbúa okkur fyrir það versta,“ sagði Þorgerður og kveður sveitarfélagið gera ráð fyrir að minnsta kosti 30% lækkun á sínum tekjum.