Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Alinn upp á malbiki

Mynd með færslu
 Mynd: Emmsjé Gauti

Alinn upp á malbiki

04.08.2020 - 09:59

Höfundar

Sjötta breiðskífa Emmsjé Gauta kallast Bleikt ský og er hin áhlýðilegasta, sterkt „íslenskt“ hipphopp frá manni sem hefur verið leiðarljós í þeim efnum um árabil.

Emmsjé Gauti er eldri en tvævetur í íslenska rappbransanum, hefur verið miðlægur í seinni bylgjunni alla tíð og náði að segja halló við þá fyrstu. Hann hefur ekkert að sanna lengur og mögulega skýrir sú staðreynd hið örugga flæði og þá sátt sem rennur um þessa plötu.

Pælingar

Síðasta plata, Fimm (2018), var á innhverfum nótum, Gauti Þeyr pælandi í hinu og þessu eftir rennireið áranna á undan þar sem hann standsetti sig sem eina af helstu rappstjörnum Íslands. Meiri læti höfðu verið í plötunum á undan, stórsmellir og stjörnustælar eins og fylgir ungæðislegum upphafsárum (þó að hann hafi samt ekkert verið að byrja í bransanum).

Bleikt ský er ekki uppgjörsplata eins og Fimm en líður samt áfram í svipuðum gír stemningslega. Mörg lagana eru með sterkum „r og b“ blæ, sum þeirra skammlaust popp, og flæðið er þægilegt og höfugt út í gegn. Þetta er stutt plata (rúmar þrjátíu mínútu) og þétt, sæmilega fjölbreytt en samt heilsteypt. Öll hljóðvinnsla og forritun upp á tíu.

Þetta er sannfærandi verk. Vagg & velta var svona bombuplata, Fimm rólega platan en á þessari dregur hann saman eitt og annað í raun. Flaggar ballöðum, furðusmíðum, hörðu hipphopp og mýkt og snarar þessu öllu út af fagmennsku. „Upp á topp“ er kraftmikil smíð þar sem persónulegu nóturnar fá að ráða og í gegnum plötuna dæsir hann einatt yfir stöðunni sem hann er í. Í „Vá“ segir: „Þetta líf er eins og lélegt grín / Ég rappa til að fæða og klæða börnin mín“. Gauti er góður í þessu, hann sér allt þetta skoplega við feril sinn og líf og kann að koma því í orð. Fyndnar hendingar og stundum ljúfsárar jafnvel. Það heyrist vel á þessari plötu að hann er með bestu textasmiðum samtíma rapps, er að segja sniðugar hversdagssögur sem margir geta speglað sig í, ófeiminn við að vera einlægur og ófullkominn.

Sterkt

Tónlistin sjálf er einslags popprapp með dassi af „r og b“ og hún er vel útsett. Skringilög gera vart við sig („Nike“) og harðari hliðar fá líka að njóta sín („Flökkusaga“, „Vandamál“) en allt kemur þetta eðlilega inn í heildina. „Malbik“, sem lokar plötunni, er snilld. Epískt lokalag. „Er grasið grænna hinum megin við mig? / Hvað veit ég um fokking gróður? / Ég er alinn upp á malbiki.“

Sterkt „íslenskt“ hipphopp frá manni sem hefur verið leiðarljós í þeim efnum um árabil. Og hann veit alveg hvað hann er að gera: „Ég veit að ég læt eins og trúður / En ég læt ekki stjórnast eins og strengjabrúður“.

Tengdar fréttir

Íslenski fótboltinn

„Ég var hættur að vera spenntur að mæta á æfingar“

Menningarefni

„Bið alla dægurlagamenningu afsökunar“

Flottasta myndbandið sem hefur komið úr minni smiðju

Bókmenntir

Ljóð mörkuð af rökkurtilfinningum