Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Vill láta kanna hvort veiran sé vægari nú en áður

03.08.2020 - 14:31
Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, telur tímabært að rannsaka hvort kórónuveiran sem hefur valdið tveimur hópsýkingum hér á landi sé vægari en hún var í vor. Engar upplýsingar séu til um það erlendis frá en hægt sé að skoða þetta út frá þýði þeirra sem hafa sýkst. „Vonandi getum við birt upplýsingar um það á næstunni.“

Aðeins einn af þeim 80 sem eru í einangrun núna hafa þurft að leggjast inn á sjúkrahús.  Þórólfur sagði tímabært að skoða hvort menn væru að sjá önnur sjúkdómseinkenni en áður.

Hann hefði ekki séð neinar rannsóknir í þessa veru en taldi að þetta væri tímabært, hvort sem menn væru að tala um aðra bylgju eða seinni bylgju. Hann var spurður hvort hann teldi að hafin væri önnur bylgja faraldursins og sagði slíkt einfaldlega smekksatriði. „Við getum kannski sanmælst  að tala um að ný bylgja sé hafin.“ 

Þórólfur sagði að hlutfall smitaðra væri áfram lágt eða undir 0,1 prósenti miðað við skimun Íslenskrar erfðagreiningar. Hann sagði miklar sveiflur í fjölda þeirra sem væru að greinast með COVID-19 og því væri ekki rétt að leggja of mikið upp úr því. 

Það væri þó ánægjulegt að fleiri væru að greinast í sóttkví en áður og hversu fáir hefðu reynst jákvæðir í skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu. „Þetta bendir til þess að samfélagslegt smit er ekki útbreitt en þá má búast við fleiri smitum á næstu dögum.“

Þórólfur áréttaði jafnframt að ef það sæist ekki árangur af þeim aðgerðum sem gripið hefði verið til myndi smituðum fjölga mikið. „En vonandi mun það ekki gerast.“  Þá myndi það væntanlega skýrast að loknum fundi með höfundum spálíkans Háskóla Íslands hvort hækka þyrfti viðbragðsstig úr hættustigi í neyðarstig.  Thor Aspelund, prófessor í líftölufræði, sagði í hádegisfréttum RÚV að staðan nú liti út eins og byrjun á faraldri. Fara þyrfti varlega því eitthvað væri komið af stað.

Þórólfur sagði það jafnframt koma til greina að setja lönd aftur í flokk með hááhættusvæðum en benti á það myndisetja strik í reikninginn varðandi skimanir á landamærunum.

Alma D. Möller, landlæknir, rifjaði upp þær aðgerðir sem notaðar voru til að hefta útbreiðslu farsóttarinnar í vor. Markmið þeirra væri að slá skjaldborg um þá sem eldri eru og viðkvæmari og vernda fólk í áhættuhópum.  Þá þyrfti að vernda nauðsynlega innviði eins og heilbrigðisþjónustuna með því að fletja út kúrvuna og eiga nóg af tækjum og lyfjum.

Alma sagði jafnframt að almannavarnir væru enn að fá ábendingar um að gera þyrfti betur varðandi tveggja metra regluna og að sums staðar vantaði spritt.  Hún sagði jafnframt að nú væri meira gert af því að skima fólk ef upp kæmi smit á fjölsóttum stöðum og þess vegna væru mögulega færri í sóttkví en oft áður. 

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, sagði að almannavarnir hefðu fengið ítarlegan spurningalista frá KSÍ varðandi framhald mála. Og svörin við þeim spurningum yrðu ekki kannski með þeim hætti og þau hefðu óskað sér. Þetta snerist ekki eingöngu um að spila fyrir luktum dyrum heldur líka tveggja metra regluna.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV