Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Þrír á áttræðisaldri í einangrun með COVID-19

03.08.2020 - 14:44
Frá skimun ÍE á Akranesi hjá slembiúrtaki 2. ágúst 2020.
 Mynd: Almannavarnadeild ríkislögregl
Þrír á áttræðisaldri eru í einangrun með COVID-19. Þetta kemur fram á covid.is. Langflestir þeirra sem eru í einangrun vegna kórónuveirunnar eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu eða 57. Þar eru líka flestir í sóttkví eða 524. Aðeins eru fjórir sem ekki eru skráðir með lögheimili á Íslandi í einangrun og tveir Íslendingar sem eru með skráð lögheimili erlendis.

Austurland er eina landssvæðið þar sem ekki hefur greinst smit.  Flestir eru í einangrun á Vesturlandi ef höfuðborgarsvæðið er undanskilið. Þar eru 46 í sóttkví og 9 í einangrun. 

Langflestir þeirra sem eru með staðfest smit eru á aldrinum 18 til 29 ára eða 26. 18 eru fertugsaldri og 15 á fimmtugsaldri.  Aðeins eru fimm í einangrun á aldrinum 13 til 17 ára.

Alls greindust átta ný innanlandssmit í gær og voru fimm af þeim í sóttkví, að því er fram kom á upplýsingafundi fyrr í dag.  Tveir greindust með kórónuveiruna við skimun á landamærunum en þeir bíða báðir eftir niðurstöðu úr mótefnamælingu. 

Rúmlega þrjú þúsund sýni voru tekin og var hlutfall jákvæðra sýna um 2,5 prósent. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV