Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þórsarar fá Steinnes frá Akureyrarbæ

03.08.2020 - 22:11
Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason / RÚV
Akureyrarbær hefur afhent íþróttafélaginu Þór húsið Steinnes til afnota. Húsið stendur inni á íþróttasvæði félagsins og hefur verið þrætuepli um árabil.

Steinnes var byggt fyrir rúmum 30 árum. Þá var húsið í góðri fjarlægð frá íþróttasvæði Þórs. Með árunum hefur íþróttasvæðið stækkað til muna og Akureyrarbær keypti Steinnes árið 2008 vegna aðalskipulagsbreytinga.

Hætt við að rífa húsið niður

Fyrrverandi eiganda hússins voru gefnir tveir kostir, að selja Akureyrarbæ húsið ellegar myndi Akureyrarbær taka það eignarnámi. Þá stóð til  að rífa húsið. Það stendur hins vegar enn og nú hefur Þór fengið það til afnota.

Fyrri eigendur leigðu húsið af bænum eftir söluna allt til ársins 2017.  Sýrlensk flóttafjölskylda bjó síðan í húsinu en flutti þaðan út nýverið, og hefur það staðið autt síðan. Húsið hefur ekki verið rifið eins og til stóð. Halla Björk Reynisdóttir segir að á meðan húsið nýtist íþróttafélaginu Þór sjái hún ekki fram á að það verði rifið.

„Þetta var allavega svona skilningur að það væri annað hvort til niðurrifs eða til nýtingar fyrir íþróttafélög. Húsið er fínt og það er hægt að nýta þetta til félagsaðstöðu, og við ákváðum að ganga frá samningi við Þór þá núna.“ segir Halla Björk.

Verður ekki íbúðarhús leikmanna

Stór þáttur í því að ekki er hægt að nýta húsið til búsetu er að aðkoma að því er lítil sem engin nema í gegnum íþróttasvæðið. Reimar Helgason, framkvæmdastjóri Þórs, segir það til skoðunar hvernig nýtingu hússins verði háttað innan félagsins. Það sé þó útilokað að búið verði í húsinu. Vilji sé til þess að allar deildir innan félagsins geti notfært sér aðstöðu hússins.

Akureyrarbær setti það raunar sem skilyrði um nýtingu hússins að sögn Höllu Bjarkar að ekki yrði föst búseta í því. Leikmenn koma ekki til með að búa í húsinu þar sem það fer illa saman að halda úti félagsaðstöðu og heimili leikmanna. 
Fjölskyldan sem bjó í húsinu lýsti á sínum tíma yfir mikilli andstöðu við söluna, enda hafði hún byggt húsið upp yfir langan tíma.

Finnst þér þetta alveg sanngjörn meðferð gagnvart fólki sem byggði þarna hús í góðri trú en fékk íþróttasvæði í fangið inn á lóð hjá sér?

„Það er alltaf erfitt að breyta skipulagi eftir á og getur komið illa við fólk. Ég get vel skilið að það hafi verið að einhverju leyti ósátt. En það náðust samningar við fólkið og húsið var keypt held ég á sanngjörnu verði.“ segir Halla Björk. 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV