„Þarft að vera tilbúinn til að lifa annarra manna lífi"

Mynd: Aðsend mynd / Aðsend mynd

„Þarft að vera tilbúinn til að lifa annarra manna lífi"

03.08.2020 - 10:39

Höfundar

„Þetta er ekki algengt. Ég er búinn að vera að mér vitandi eini lærði brytinn á Íslandi þar til í vor þá útskrifaðist ungur maður úr sama kokkaskóla og ég var í á sama tíma. Þannig við erum orðnir tveir, það hefur fjölgað um 100%,” segir Jóhann Gunnar Arnarsson sem er kannski hvað þekktastur fyrir dans en hann starfaði einnig sem bryti á Bessastöðum í tíu ár. 

Jóhann Gunnar var gestur Viktoríu Hermannsdóttur í Segðu mér á Rás 1. Jóhann vakti mikla athygli sem dómari í þáttunum Allir geta dansað sem sýndir voru á Stöð 2. Hann hefur verið í dansi frá unga aldri en einnig starfað við þjónustustörf og er lærður bryti. Hann útskrifaðist sem bryti árið 2017 eftir að hafa starfað með eiginkonu sinni á Bessastöðum í tíu ár. 

Alls ekki fyrir alla
Hann segir starfið ekki vera fyrir alla. „Þetta er alls ekki fyrir alla. Þú þarft í rauninni að vera tilbúinn til að lifa annarra manna lífi, það er eiginlega svolítið svoleiðis,” segir Jóhann. Góður bryti þarf að vera til staðar, til þjónustu reiðubúinn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd

„Ef þú ert til í það þá getur þetta verið rosalega skemmtilegt. Þú þarft að vera tilbúin að vera í fríi þegar húsfrúin eða húsbóndinn er í fríi. Þú getur ekki alveg ráðstafað þínum tíma eins frjálslega og þú getur kannski ella,” segir Jóhann. 

Hann segir tímann á Bessastöðum hafa verið góðan. „Þetta var rosalega skemmtilegt og lærdómsríkt. Ótrúlega skemmtilegur tími. Það var líka erfitt. Mikið að gera. Við vorum þá með þrjár stelpur á heimilinu og svona að reyna samræma þetta allt saman, heimilislífið og vinnuna. En ómetanlegt tækifæri og tími að mörgu leyti.”

Þagmælska lykilatriði
Hann segir bryta sjá um margt í starfi sínu. „Það er eiginlega spurning hvað fólst ekki í starfinu,” segir hann hlæjandi aðspurður um hvað starfið feli í sér. Hann segir þægmælsku vera lykilatriði. Það verði að vera hægt að treysta brytum. „Það var mikið áfall á sínum tíma þegar butler Díönu prinsessu gaf út bók og uppljóstraði um ýmislegt sem fór þeirra á milli. Það var mikið áfall fyrir stéttina,” segir Jóhann. 

Hægt er að hlusta á viðtalið við Jóhann í heild sinni hér og í öllum helstu hlaðvarpsveitum.