Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Segir að fjöldinn segi ekki alla söguna

Mynd með færslu
Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfs. Mynd:
25 konur og börn hafa dvalið í Kvennaathvarfinu um verslunarmannahelgina, þar af leituðu fjórar konur þangað um helgina. Sigþrúður Guðmundsdóttir verkefnastýra Kvennaathvarfsins segir ekki hægt að fullyrða neitt um tíðni heimilisofbeldis um helgina út frá þessum fjölda, algengt sé að konur leiti í athvarfið eftir að nokkuð er liðið frá ofbeldinu.

„Það er búið að vera erilsamt hjá okkur eins og í sumar,“ segir Sigþrúður.„En það hefur ekki verið meira af nýkomum en venjulega.“

Sigþrúður segir að það sé alvanalegt um verslunarmannahelgi. Allur gangur sé á því hvernig komur dreifist í Kvennaathvarfið yfir árið. „Stundum eru álagspunktar í kringum frí eða jól eða verslunarmannahelgi eða eitthvað slíkt. Stundum er það einmitt ekki þannig að það er svo erfitt að spá fyrir um það.“ 

Sigþrúður segir að þó að fjöldi koma í Kvennaathvarfið geti gefið vísbendingu um umfang heimilisofbeldis, þá segi það ekki alla söguna.

„Ég held að komur í athvarfið segi ósköp lítið um það hverju sinni hvað er að gerast úti í samfélaginu. Konur koma til okkar kannski seinna. Það er í rauninni mjög tilviljanakennt hvernig helgar eru. Stundum er kannski verslunarmannahelgi þegar enginn leitar til okkar og stundum eru það miklu fleiri. Þannig að þetta er hvorki venjulegt eða óvenjulegt eiginlega,“ segir Sigþrúður.