Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ræðst á næstu dögum hvert „nýja bylgjan“ fer

03.08.2020 - 16:33
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Næstu dagar skipta sköpum um það hvernig „ný bylgja“ kórónuveirufaraldursins þróast hér á landi. Sérfræðingar eru sammála um að viðbrögð almennings séu lykilatriði. Standi fólk sig vel í sóttvörnum náist betri árangur en ella. Áttatíu eru nú í einangrun. Einn er á sjúkrahúsi og þrír eru með gulan litakóða hjá COVID-19 göngudeildinni sem þýðir miðlungsveikindi. Aðrir eru grænir sem þýðir lítil eða engin einkenni.

Thor Aspelund, einn af höfundum spálíkans Háskóla Íslands um þróun COVID-19 faraldursins hér á landi, sagði í hádegisfréttum RÚV að of snemmt væri að segja til um hvort önnur bylgja væri hafin.

Útlitið væri þó eins og byrjun á faraldri en ekki væri hægt að slá neinu föstu fyrr en eftir viku. „En ég ítreka að það verður taka þessu mjög alvarlega núna.“

Spálíkan gæti haft mikil áhrif

Á næstunni verður birt nýtt spálíkan á covid.hi.is og ef útkoman úr þeirri spá verður svört þurfa yfirvöld hugsanlega að endurmeta stöðuna og grípa til enn frekari aðgerða.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á upplýsingafundinum í dag að  búast mætti við að smituðum ætti eftir að fjölga á næstu dögum. Ef það sæist ekki árangur af þeim aðgerðum sem nú þegar hefði verið gripið til myndi smituðum væntanlega fjölga mikið en vonandi kæmi ekki til þess. Mikilvægast væri að fólk viðhefði einstaklingsbundnar sýkingavarnir - handþvottur, spritt og tveggja metra fjarlægð

Viðbrögð við atburði 

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar á Landspítala, segist ekki vera ósammála Þórólfi um að það sé áhugaverð og áleitin spurning hvort veiran sé vægari nú en áður.

Hann telur þó líklegustu skýringuna vera þá að við séum á allt öðrum stað núna en í vor. „ Þá var nálgunin sú að taka inn fólk til greiningar sem var með einkenni. Nú erum við í annarri nálgun sem er að skima fullt af fólki sem er einkennaminna en var vissulega til staðar áður.“ Það sé því verið að skima miklu meira og „pikka upp“ vægari tilfelli. „Þetta kann að vera skýringin en við höfum enga leið til að segja af eða án.“

Már segir að næstu dagar eigi eftir að skipta sköpum. „En þetta eru viðbrögð við atburði sem þegar hefur gerst . Það er búið að bregðast við og næstu dagar munu svara því hvort þessi viðbrögð séu fullnægjandi. Annað hvort koma fleiri sýkingar eða þetta dettur niður.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Runólfur Pálsson, yfirlæknir COVID-göngudeildar

Viðbrögð almennings lykilatriði

Runólfur Pálsson, yfirlæknir COVID-göngudeildar Landspítala, segir í samtali við fréttastofu að nú séu þrír af þeim áttatíu sem eru í einangrun flokkaðir sem „gulir“ sem þýða miðlungsveikindi.  Fyrir utan þann sem liggur á legudeild smitsjúkdómadeildar eru aðrir merktir grænir sem þýðir lítil eða engin einkenni.  Engin er því rauðmerktur en slíkt myndi þýða að viðkomandi getur þurft að leggjast inn á sjúkrahús.

Runólfur segir eðlilegt að velta því fyrir sér hvort veiran nú sé vægari en áður eins og sóttvarnalæknir gerði á upplýsingafundinum í dag. Hann bendir á að yfir hundrað hafi þurft að leggjast inn á sjúkrahús í vor og að þær innlagnir hafi flestar verið snemma í faraldrinum. „En það þarf nákvæmar rannsóknir til að meta hvort einhver ákveðin stofn veirunnar hefur aðrar birtingarmyndir.“

Á vefnum covid.is kemur fram að þrír á áttræðisaldri séu nú einangrun með kórónuveiruna og einn á sjötugsaldri.  Runólfur segir það vissulega rétt að margir á þessum aldri hafi veikst alvarlega í fyrri lotunni og þetta séu aldurshópar sem hafi verið taldir viðkvæmari . „En þótt áhættan sé meiri þá er ekki sjálfgefið að það gerist.“

Þótt margir hafi áhyggjur af stöðu mála segir Runólfur ákveðna ástæðu til bjartsýni. Verið sé að prófa alveg látlaust og viðbrögð yfirvalda hafi verið fumlaus. Næstu dagar skeri svolítið úr um hvernig þetta muni þróast. „Allt ræðst þetta á því hvað almenningur gerir. Ef fólk stendur sig vel í sóttvörnum þá náum við betri árangri en ella.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV