
Óttast öngþveiti í almenningssamgöngum
Sumarfríum í Svíþjóð lýkur senn og útlit er fyrir að farþegum taki að fjölga næstu daga. Óttast er að troðningur í lestum, strætisvögnum, sporvögnum og ferjum geti greitt fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar.
Í sumar var brugðið á það ráð í sumum landshlutum að takmarka fjölda farþega í samgöngutækjum. Þá hefur verið lagt til að seinka skóladeginum hjá hluta nemenda til þess að koma í veg fyrir að að örtröð myndist á ákveðnum tímum dags.
Sænsk heilbrigðisyfirvöld hafa ekki sett á grímuskyldu í almenningssamgöngum. Í Danmörku eru sumarfrí sömuleiðis að renna sitt skeið og því gert ráð fyrir fleiri farþegum í almenningssamgöngum á næstu dögum. Danir mæla með því að nota hlífðargrímur í almenningssamgöngum, sér í lagi ef erfitt er að halda tilskilinni fjarlægð við aðra farþega.
Vi har udvidet vores anbefalinger om brug af mundbind i særlige situationer - og anbefaler nu også mundbind, hvis man bevæger sig ud i den kollektive trafik på tidspunkter, hvor det er svært at holde afstand til andre passagerer https://t.co/KNfEiDTagU #coronavirus #covid19dk pic.twitter.com/H3tuM2AxFz
— Sundhedsstyrelsen (@SSTSundhed) July 31, 2020
Ekki þarf að nota andlitsgrímu í strætó á Íslandi. Hins vegar ber fólki að nota grímu í áætlunarflugi, farþegaferjum og rútum.