Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Óttast öngþveiti í almenningssamgöngum

03.08.2020 - 12:57
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Samgönguyfirvöld í Svíþjóð óttast aukinn troðning í almenningssamgöngum víða um land þegar skólarnir hefjast á ný eftir sumarfrí. Dagens Nyheter greinir frá þessu.

Sumarfríum í Svíþjóð lýkur senn og útlit er fyrir að farþegum taki að fjölga næstu daga. Óttast er að troðningur í lestum, strætisvögnum, sporvögnum og ferjum geti greitt fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar.

Í sumar var brugðið á það ráð í sumum landshlutum að takmarka fjölda farþega í samgöngutækjum. Þá hefur verið lagt til að seinka skóladeginum hjá hluta nemenda til þess að koma í veg fyrir að að örtröð myndist á ákveðnum tímum dags. 

Sænsk heilbrigðisyfirvöld hafa ekki sett á grímuskyldu í almenningssamgöngum. Í Danmörku eru sumarfrí sömuleiðis að renna sitt skeið og því gert ráð fyrir fleiri farþegum í almenningssamgöngum á næstu dögum. Danir mæla með því að nota hlífðargrímur í almenningssamgöngum, sér í lagi ef erfitt er að halda tilskilinni fjarlægð við aðra farþega.

Ekki þarf að nota andlitsgrímu í strætó á Íslandi. Hins vegar ber fólki að nota grímu í áætlunarflugi, farþegaferjum og rútum.