Mynd: EPA-EFE - ABACAPRESS POOL

Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.
Ný bylgja faraldursins skollin á vestra
03.08.2020 - 04:19
Önnur bylgja kórónuveirufaraldursins hefur skollið á Bandaríkjunum. Þetta segir Deborah Birx sérlegur ráðgjafi Hvíta hússins um faraldurinn.
Birx sagði í viðtali við CNN að víða um land hefði tekist að milda áhrifin af Covid-19 en bætti svo við að ástandið núna væri ólíkt því sem verið hefði í mars og apríl.
„Útbreiðslan er ótrúleg og hún nær jafnt til strjálbýlli svæða sem þeirra þéttbýlli,” sagði Birx og bætti við að fólk í dreifðari byggðum væri ekki óhult eða verndað sérstaklega fyrir veirunni.
„Ný bylgja faraldursins hefur skollið á okkur,” sagði hún svo. Þá áréttaði hún mikilvægi hreinlætis, andlitsgrímunotkunar og þess að virða fjarlægðartakmörk.
Bergmálar áhyggjur Kára Stefánssonar
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar sagði í samtali við fréttastofu í gærkvöldi að staðan hér væri alvarlegri nú en í vor. Nú sé veiran í felum í samfélaginu. „Þetta lítur mun verr út," sagði Kári.