Notuðu skilríkin sem innbrotsmaðurinn skildi eftir

Mynd: Snorri Másson / Facebook

Notuðu skilríkin sem innbrotsmaðurinn skildi eftir

03.08.2020 - 10:00

Höfundar

„Ef allir hefðu sömu skoðanir og við Snorri bróðir minn þá væri heimurinn versti staður sem hægt er að hugsa sér,“ segir Bergþór Másson, annar hlaðvarpsstjóri hinna vinsælu Skoðanabræðra sem senda vikulega frá sér nýjan viðtalsþátt. Þættirnir hafa meðal annars vakið eftirtekt fyrir hispurslausar meiningar bræðranna sem láta allt flakka. Snorri og Bergþór voru gestir Jakobs Birgissonar í Sumarsögum á Rás 2.

Bræðurnir hafa sterkar skoðanir á lífinu og málefnum líðandi stundar og hafa þeir síðan í vor haldið úti hlaðvarpinu Skoðanabræður þar sem þeir láta gamminn geisa. Bergþór er umboðsmaður og framleiðandi en Snorri starfar sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu. Nýr þáttur er birtur vikulega og fá bræðurnir til sín góðan gest í hverjum þætti sem segir þeim frá æsku sinni, reifar skoðanir á hinu og þessu og spjallar við bræðurna. Á meðal gesta sem hafa tyllt sér í stúdíó bræðranna eru spéfuglinn Dóri DNA, menningarrýnirinn Berglind Festival, leikarinn Aron Mola, forsætisráðherrann Katrín Jakobsdóttir, Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Guðni Th. Jóhannesson forseti.

Veisla hjá Bræðralaginu

Auk vikulegra viðtalsþátta senda þeir á tveggja vikna fresti frá sér aukaþátt þar sem þeir tveir spjalla um það helsta sem er að gerast í þjóðfélaginu og gera gys að sjálfum sér, lífinu og ekki síst hvor öðrum. Aukaþátturinn er þó eingöngu aðgengilegur þeim sem gerast áskrifendur að þáttunum gegn mánaðarlegu gjaldi og ganga í hið svokallaða Bræðralag í gegnum heimasíðuna Patreon. Þeir segja sjálfir að þetta áskriftarfyrirkomulag sé að verða æ vinsælla víða um heim. Tilgangurinn sé að „losa sig undan oki stóru fjölmiðlanna þar sem þú ert ekki undir auglýsendum, yfirmönnum eða fjármagnseigendum kominn.“ Ýmsir hafa nú þegar gengið í bræðralagið og fer þeim sífellt fjölgandi. „Við erum ekkert með þúsundir áskrifenda þó við séum með þúsundir hlustenda en ég kann vel við kerfið og það er athyglisvert að þetta virki,“ segir Snorri. Um áskriftarfyrirkomulagið sem Bergþór: „Frjáls fjölmiðlun kostar. Hún er dýr og maður þarf að borga leigu og mat og ef maður á börn þarf maður að borga bleyjur.“ Notendum sé svo í sjálfsvald sett að hætta að greiða og hlusta á eitthvað annað þegar þeir óski. „Ef einhver hlustandi verður ósáttur við það sem fram kemur í þættinum getur hann einfaldlega hætt.“ Snorri tekur undir. „Þetta er að gerast á tímum þegar allir eru að væla yfir stöðu frjálsra fjölmiðla, að hún sé einhvern veginn tvísýn. Með þessum hætti er vonarglæta þó þetta sé ekki endanleg lausn - en þetta er algjör veisla.“

Þakklátir að kynnast sparsemi

Bræðurnir eru þrír. Snorri er fæddur 1997, Bergþór 1995 og svo er elsti bróðir þeirra Ari fæddur 1990. Þegar foreldrar bræðranna, Margrét Jónsdóttir Njarðvík tilvonandi rektor Háskólans á Bifröst og Már Jónsson sagnfræðingur, voru enn gift og bræðurnir að alast upp ferðuðust þau stundum saman öll fjölskyldan til Danmerkur og Spánar. Ólíkt flestum jafnöldrum þeirra hryllti þá við utanlandsferðunum en hluti af ástæðu þess er að fjölskyldan leyfði sér ekki mikinn munað á ferðalögum heldur lifði sparsamt, smurði sér samlokur og nýtti dagana í ókeypis útiveru að skoða fjöll, rústir og kastala. „Í Kaupmannahöfn smurðum við okkur nesti, spægipylsubrauð og súkkulaðismjör. Í staðinn fyrir að fara á veitingastað stoppuðum við á bekk,“ rifjar Snorri upp. Í dag eru þeir þakklátir að hafa lært sparsemi. „Þetta er verðmætasta veganesti sem ég hef fengið,“ segir Snorri og Bergþór er sammála. „Mamma og pabbi, ég kann virkilega að meta þetta. Og menningargildið í að gera leiðinlega hluti. Smátt og smátt byrjarðu að fíla þá.“

Aumingjar liggja löngum stundum og horfa á rusl

Bræðurnir voru þó ekki aðeins mótfallnir utanlandsferðunum. „Ég hataði flest sem við gerðum af þessum toga. Sumarbústaði, hjólaferðir og fjallgöngur. Við vorum þriggja manna stéttarfélag sem reis upp og gerði alvarlega athugasemd við framgöngu foreldra okkar.“ Aðra hvora helgi var þrátt fyrir mótmælin haldið í bústaðarferð. „Líf mitt var skilyrt af því að aðra hvora helgi væri þetta díll. Þetta var málamiðlun og það var ábyggilega ömurlegt fyrir foreldra okkar að mæta þessari mótstöðu frá okkur.“ Bústaðinn skorti enda ákveðinn lúxus sem gerði bræðrunum kleift að stunda sitt helsta áhugamál. „Þarna var ekkert net en það eina sem við vildum gera var að spila tölvuleiki. Við vorum að spila World of warcraft í óheilbrigt miklum mæli en við hötuðum meira en allt að fara upp í bústað,“ segir Snorri.

Þeir brugðu því á það ráð í bústaðnum að gera það, sem nú á tímum streymisveitu og aukins framboðs á sjónvarpsefni, er stundað af mörgum sófakartöflum. „Við vorum að einhverju marki frumkvöðlar í hámhorfi. Þegar aumingjar liggja í herbergjum löngum stundum og horfa á rusl, þetta gerðum við sem ungir menn,“ segir Snorri. „Þarna vorum við með flakkara að horfa á Simpsons, Friends, How I met your mother og Family guy,“ telur Bergþór upp.

„Brjóta fjarstýringuna og kasta í sjóinn“

Tölvuleikjafíkn drengjanna var eftir á að hyggja vandamál. „Við spiluðum annars tölvuleiki af áfergju. Þetta var próblematískt vandamál sem er víða grasserandi,“ segir Snorri. Hvað er þá til ráða þegar börn sogast inn í sýndarveruleikann og minnka þátttöku í efnisheiminum á hans kostnað? „Zero tolerans harðlínustefna. Brjóta fjarstýringuna og kasta henni út í sjó,“ segir Bergþór ákveðinn. Snorri dregur í land. „Bróðir minn er draumóramaður og yfirlýsingaglaður og ég held það sé ekki nauðsynlega góð leið en ég held það sé engin góð leið til að vinda ofan af þessu. Sniðugast held ég sé að krossa fingur og reyna að milda skaðann með mótvægisaðgerðum.“

„Ég vaknaði við þennan mann“

Eftir að gagnfræðaskóla lauk og bræðurnir hættu í tölvuleikjum og byrjuðu í Menntaskólanum í Reykjavík fóru þeir að kynna sér næturlífið. „Ég man sumarið 2015 þegar ég kom heim úr skiptinámi þá var ég hverja einustu helgi, báða dagana, allt sumarið á Prikinu. Maður var áhyggjulaus, 17-18 ára að smygla sér inn á skemmtistaði með skilríki.“

Stundum notuðu þeir skilríki Ara bróður síns til að komast inn á skemmtistaði en þeim áskotnaðist líka mjög óvænt fölsk skilríki þegar óboðinn gestur valsaði inn á heimili drengjanna að næturþeli þegar þeir voru sofandi heima. „Við áttum því láni að fagna að drukkinn maður ruddist inn í húsið okkar að næturlagi í óðagoti og ölæði, greinilega viti sínu fjær,“ rifjar Snorri upp. Bergþór man þessa nótt vel. „Ég vaknaði við þennan mann. Við bjuggum í kjallara og það var alltaf opið. Ég veit ekki af hverju, við vorum bara aldrei með lykil á okkur.“

„Við tókum þetta veski í fóstur okkar“

Snorri telur manninn hafa farið húsavillt og ekki hafa haft neitt vafasamt í hyggju. „Hann ætlaði að pissa, á gólfið eða í klósett,“ segir Snorri. „Þetta var voðalega saklaust hjá honum, hann rambaði bara inn. Hann gerði ekkert saknæmt, þetta var fullkomlega eðlilegt,“ segir Bergþór. Það vildi svo heppilega til að maðurinn var ekki ósvipaður bræðrunum á mynd á skilríkjum sem urðu eftir og hann var fæddur árið 1989 og mátti því löglega stunda næturlífið. „Hann braust inn og við „lootuðum“ hann til baka,“ segir Bergþór. „Já eða braust inn... mér finnst það gildishlaðið orð,“ segir Snorri. „Allavega skildi hann veski eftir á heimilinu. Það er það eina sem við getum fullyrt með góðum og vísindalegum hætti. Og við tókum þetta veski í fóstur okkar.“

Það hvarflaði þó aldrei að drengjunum að skila veskinu til eigandans. „Ég held hann hefði ekkert viljað það,“ segir Snorri og bætir því við að brúkleg skilríki á þessum tíma hafi verið hinn mesti fengur. „Þekkingar- og kunnáttumenn leiksins vita að þetta var hvalreki, að fá skilríki upp í hendurnar. Og ég tel mér það til tekna að ég var svo þroskaður og myndarlegur að ég gat notað þetta þó hann væri fæddur 89 en ég 97. Þetta var ekkert þrususkilríki en í asanum gat það gegnt sínu hlutverki.“

Pizza, sturta og aftur í gallajakkann

Þeir segja það mjög miður að í dag sé ekki eins auðvelt, eða allt að því ómögulegt fyrir ungmenni að komast á skemmtistaði á fölskum skilríkjum enda segja þeir þann hluta af uppvextinum hafa verið mjög mikilvægan fyrir sig. „Það var bara pizza og bjór á föstudögum og laugardögum og svo alltaf á Prikið,“ lýsir Snorri. Bergþór segir minningarnar frá þessum árum góðar þó lífsstíllinn hafi ekki hentað til lengdar. „Þetta var veisla lífsins. Maður var að vakna á laugardögum heima hjá vini sínum og hugsa: Jess, aftur í kvöld.“ Og þá var haldið áfram. „Í mesta lagi pizza og sturta, aftur í gallajakkann og aftur út,“ segir Snorri.

„Áfengi heldur uppi allri stemningu á landinu“

Í dag er Bergþór hættur að drekka en hann kveðst feginn því að ekki hafi allir tekið sömu ákvörðun. „Ég er á móti áfengisneyslu í miklu magni en áfengi heldur samt uppi allri stemningu á landinu. Ef við værum ekki með áfengi væri allt frekar „boring“,“ segir hann. „Og ef allir væru eins og ég, ef allir hefðu sömu skoðanir og ég og Snorri bróðir minn væri heimurinn versti staður sem hægt er að hugsa sér.“

Snorri stundar skemmtanalífið ekki eins grimmt og þeir bræður gerðu rétt fyrir tvítugt en hann lyftir sér þó stundum upp og fær sér í glas. „Eins og fyrir mig, 95 kílóa meðalþunglyndan mann, þá drattast ég niður í bæ við og við.“ Fáum Íslendingum hefur þó dulist að opnunartími skemmtistaða hefur verið skertur í sumar og í ljósi nýjustu vendinga í COVID-19 útbreiðslu mun það ástand vara áfram. Það gerir Snorra fráhverfan næturlífinu. „Þetta er gjörsamlega ömurlegt ástand núna,“ segir hann. „Mér finnst ekki mönnum bjóðandi að geta ekki verið á öldurhúsum til eitt.“ Auk þess sem drykkjan sjálf sé ekki sama veislan að sögn bræðranna og áður var. „Afleiðingarnar vaxa manni með hverju ári meira í augum og maður sér þynnkuna, þunglyndið og viðbjóðinn ofan í botninum á glasinu með hverjum sopanum.“

Jakob Birgisson ræddi við Skoðanabræður í Sumarsögum á Rás 2.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Lögregluþjón dreymir um að komast í kvenfélagastarf

Bókmenntir

„Nú verð ég drepin fyrir að tala illa um fólk“