Lögreglan: „Ekki bjóðandi að halda brjáluð partý"

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Nokkrar annir voru hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld og í nótt að því er kemur fram í dagbók hennar.

Alls komu sjötíu mál inn á borð lögreglunnar, þar af um tugur kvartana vegna hávaða og ónæðis af ýmsu tagi. Lögreglan kvaðst, á Facebook-síðu sinni í gær, hafa fengið fjölmörg skilaboð þess efnis að nætursvefn væri truflaður af háværum samkvæmum sem stæðu iðulega fram til morguns.

Í færslunni benti lögregla á að sumt fólk þyrfti að mæta til vinnu að morgni þó helgi væri. Því yrðu hávaðasöm samkvæmi óhikað stöðvuð, ekki væri bjóðandi að halda brjáluð partý fram eftir nóttu eins og það var orðað.

Þrjár líkamsárásir voru tilkynntar í gærkvöld og nótt, auk slagsmála og óláta. Tveir gista nú fangageymslur lögreglunnar. Í áðurnefndi Facebook- færslu skoraði lögreglan á höfuðborgarbúa að gæta stillingar, að taka tillit til annarra og elska friðinn því þessi verslunarmannahelgi væri ekki venjuleg.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi