Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gríðarlegur samdráttur hjá HSBC bankanum

03.08.2020 - 06:13
Mynd með færslu
 Mynd: EBU
Hagnaður HSBC bankans, eins stærsta banka heims, hrapaði um 69 af hundraði á fyrri helmingi ársins, eftir skatta. HSBC-bankinn er fjölþjóðlegur banki með höfuðstöðvar í London.

Ástæða þessa slæma gengis er sögð vera útbreiðsla Covid-19, lækkandi vextir og sífellt vaxandi spenna milli Bandaríkjanna og Kína.

Áður en faraldurinn skall á var tekið að halla undan fæti hjá bankarisanum, hagnaður dróst saman, tvísýna í samskiptum Kína og Bandaríkjanna var tekin að hafa áhrif auk þess sem brotthvarf Bretlands úr Evrópusambandinu skapaði óvissu.

Til stóð að fækka störfum innan bankans verulega og skera niður þjónustu þar sem lítil hagnaðarvon var. Stærstur hluti viðskipta bankans er í Asíu en stjórnendur hans hafa tekið ákvarðanir sem bæði hafa reitt stjórnvöld í Kína og Bandaríkjunum og Bretlandi til reiði.

Kínastjórn sakar stjórnendur bankans um að hafa veitt upplýsingar sem auðvelduðu handtöku Meng Wanzhou stjórnarkonu í fjarskiptafyrirtækinu Huawei. Hins vegar þykir vestrænum stjórnvöldum bankinn hafa dregið taum Kínverja við upptöku öryggislaga í Hong Kong.

Bankinn stendur því berskjaldaðri fyrir áföllum ársins 2020 en margir keppinauta hans enda segir Noel Quinn forstjóri bankans að fyrri hluti ársins sé sá erfiðasti sem hann muni eftir.