Friðarverðlaunahafinn John Hume látinn

03.08.2020 - 10:10
Mynd: EPA / RÚV
John Hume, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels ásamt David Trimble fyrir friðarsamkomulagið á Norður-Írlandi, er látinn. Hann var 83 ára. Hume, sem var leiðtogi stærsta flokks kaþólikka skrifaði ásamt Trimble undir Belfast-samkomulagið í apríl 1998. Þeir sneru síðan bökum saman og tryggðu samkomulaginu sigur í þjóðaratkvæðagreiðslu, meðal annars með því að koma fram á tónleikum írsku rokksveitarinnar U2.

Hume barðist alla tíð fyrir friðsamlegri lausn á deilum mótmælenda og kaþólikka og naut mikillar virðingar. „Það er ómögulegt að koma því í orð hversu mikilvægur John Hume var,“ sagði Michael Martin, forsætisráðherra Írlands á Twitter-síðu sinni. „Sýn hans og seigla björguðu þessari þjóð.“

Fjölskyldan sagði í yfirlýsingu að jarðarför Hume yrði skipulögð með hliðsjón af þeim reglum sem gilda vegna kórónuveirunnar. „Þetta þýðir að margir geta ekki verið viðstaddir en við ætlum okkur að halda minningarathöfn þegar rétti tíminn gefst.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi